Vortónleikar Kirkjukórs Húsavíkur voru tileinkaðir Friðriki Jónssyni frá Halldórsstöðum í Reykjadal sem fékkst við organistastörf, harmonikkuleik og tónlistarstörf í rúma sex áratugi. Kórstjóri var Judit György og undirleikarar, léttsveit kórsins: Aladár Rácz á piano, Sigurður Friðriksson á harmonikku og Unnsteinn Júlíusson á kontrabassa. Kórinn söng fyrir fullu húsi í kirkjunni og á Breiðumýri. Dagskráin mæltist afar vel fyrir enda fór kórinn afar vel með lögin sem Fikki samdi. Sjálfur hreifst ég af einsöng Sigurðar Friðrikssonar er hann söng Rósina við lag föður síns.. Til stendur að taka tónleikana upp í haust.