Gospelkór Húsavíkurkirkju hélt vortónleika sína í kirkjunni 9. maí, tvívegis fyrir nánast fullri kirkju. Stjórnandi var Guðni Bragason.Gestasöngvarar. Ína Valgerður Pétursdóttir og Edgar Smári Atlason. Hjálmar Ingimarsson lék á bassa. Jón Gunnar Stefánsson á trommur, Sigurður Illugason á gítar. Snæbjörn Sigurðarson á hammond. Hljóð og tæknimaður var Kristján Halldórsson.
Góð stemning skapaðist á tónleikunum þar sem tónleikagestir klöppuðu Drottni lof í lófa undir sterkum söng kórsins og þéttum hljóðfæraleik léttsveitarinnar. Gestasöngvararnir sungu af hjartans lyst með kórnum og gerðu þessa tónleika ógleymanlega. Það hefði bætt stemninguna enn betur ef kórinn hefði flutt fleiri lög í rólegri kantinum. Aðgangseyririnn rann í ferðasjóð en kórinn heldur í tónleikaferð til Gautaborgar í Svíþjóð í lok ágúst Þess má geta að kórinn hefur sungið endurgjaldslaust við gospelmessur í kirkjunni undanfarna 9 vetur.