Um sunnudagaskólann

Deildu þessu:

Barnastarf kirkjunnar – af hverju fara foreldrar með börnin sín í sunnudagaskóla ?

,,Takk fyrir þetta allt, já takk fyrir lífið sem gefur svo margt.“

Þetta lag syngjum við í sunnudagaskólanum ásamt fleiri lögum. Við syngjum t.d. um elsku Jesú, um engla Guðs sem vaka yfir okkur, um gleðina, daginn í dag og um þakklætið.

Fermingarbörn vetrarins mæta amk tvisvar sinnum í sunnudagaskólann  í vetur og flest aðstoða með einum eða öðrum hætti. Í Kirkjulyklinum, vinnubók þeirra er spurt: Af hverju heldurðu að foreldrar mæti með  börnin sín í barnastarf kirkjunnar ?  Það er áhugaverð spurning og áhugavert að sjá ólík svör fermingarbarna.

Á undanförnum vikum hef ég fengið fleiri fyrirspurnir en áður um barnastarf kirkjunnar:  hvenær það er, hversu oft og hvað eru margir að koma og fyrir hvaða aldur er sunnudagaskólinn, eru meðal spurninga sem ég svara með glöðu geði.

Sunndudagaskólinn er í Bjarnahúsi. Hann er flest alla sunnudaga nema annað sé auglýst og klukkan 11. 00. Fjöldi þátttakenda er á bilinu 20-40 í hverri samveru. Flest börn eru á aldrinum 3- 6 ára en miðað er við að börn frá 2ja –  9 ára finni eittthvað við sitt hæfi.

Dagskráin saman stendur af einföldum söngvum, mikið er um hreyfisöngva, sögum, brúðuleikriti, bænastund og spjalli og oft förum við í einn leik.

Biblíusaga er sögð og eitthvert þema er hvern sunnudag. Í haust höfum við t.d fjallað um hjálpsemi og Hjálparstarf kirkjunnar kynnt lítillega. Krakkarnir í sunnudagaskólanum eiga sérstakan söfnunarbauk,  í hann eru þau að safna til að taka þátt í að byggja vatnsbrunn í Afríku. Þannig fær fólk hreinna vatn og ef það er vatnsbrunnur í þorpunum þá þurfa konur og stúlkur ekki að ganga langar vegalengdir að sækja vatn, en hafa tíma fyrir skóla og vinnu.

Einnig höfum við fjallað um hvað það er gott að muna að þakka fyrir sig og taka eftir því sem okkur þykir gott og eftirsóknarvert, en er ekki sjálfsagt. Um daginn kom t.d. í ljós að okkur finnst mjög gaman að eiga frí og njóta þess að bara vera.

Við höfum líka fjallað um engla og hvernig við getum fært öðrum gleði, t.d. með jákvæðni og hjálpsemi.

Oft förum við í einn leik, því það er gaman að leika saman, börn og fullorðnir.

Síðan fá börnin afmælisgjafir, þau geta valið sér, bænaspjald, bænabók eða  bókina um Kötlu og Ketil.

Í bænastund biðjum við fyrir hvert öðru, biðjum Jesú að hjálpa okkur að hugga og hughreysta hvert annað, að við megum sjá og skynja hvernig við getum verið öðrum styrkur og þannig útbreitt kærleikann í verki.

Síðan fá börnin fjársjóðskistu úr pappa, í hana safna þau myndakortum, á kortunum má finna hugmyndir fyrir börn og foreldra að skemmtilegri samveru heimafyrir.

Flest börn þiggja síðan djús og ávexti að stund lokinni og lita mynd sem þau fá í sunnudagaskólanum, einnig er boðið upp á kaffisopa og fullorðnir nota tímann til að spjalla.

Markmiðið er að eiga afslappaða, skemmtilega og uppbyggilega samverustund, þar sem börnin taka þátt en fullorðnir eru líka með og án efa hægt að spjalla um það sem þau heyra og sjá í sunnudagaskólanum.  Getur verið að foreldrum, öfum og ömmum þyki eitthvað af þessu eftirsóknarvert og gott veganesti fyrir barnið og ágætt tækifæri til að búa til minningar um samveru og styrkja tengslin sín ?

Við starfsfólk og sjálfboðaliðar erum afar þakklát fyrir samverustundirnar og hlökkum til að hittast og hvetjum alla til að koma og vera með okkur.