Trú og gleði á æskulýðsdeginum

Deildu þessu:

              Við tókum forskot á sæluna og fögnuðum æskulýðsdegi Þjóðkirkjunnar sem reyndar er ekki fyrr en fyrsta sunnudag í mars. En vegna vetrarfría ákváðum við að fagna honum þann 26. febrúar.  Í fyrra spilaði Tónasmiðjan í messu og strax að henni lokinni spurði eitt ungmennið: ,,Hvenær gerum við þetta aftur ? ”  Það var því vel við hæfi að fá Tónasmiðjuna til að sjá um tónlistina í æskulýðsmessunni, þar sem kynslóðir mætast og syngja saman og spila. Sunnudagaskólabörnin mættu í búning enda búningaþema. Krakkarnir í TTT voru búin að mála fána sem við ætlum svo að nota sem dúka í sunnudagaskólanum. Þau máluðu ýmis trúartákn sem við höfum verð að fjalla um. Einnig undirbjuggu krakkarnir bænahjörtu til að hengja á bænatréð og svo máluðu nokkur þeirra lógómyndir af sjálfum sér. Fermingarbörn aðstoðuðu í messunni, buðu upp á biblíuvers og konfekt og bæði TTT krakkar og fermingarbörn stýrðu blöðruleik ásamt prestinum. Biblíusagan um týnda soninn var saga dagsins og við minnt á að Guð elskar hvert og eitt okkar og við getum alltaf snúið okkur til hans, hann yfirgefur okkur ekki og gleymir aldrei.

Dásamleg stund, þar sem söngur, kraftur og gleði voru í fyrirrúmi. Við erum þakklát fyrir unga fólkið okkar og ekki síður fyrir frábæra sjálfboðaliða og annað starfsfólk sem tekur þátt í og leiðir margvíslegt æskulýðsstarf.  Sérstakar þakkir til Hilmars Friðjónssonar ljósmyndara sem tók myndirnar í messunni og veitti okkur góðfúslegt leyfi til að setja þær inn á heimasíðuna.