Þingeyjarprestakall- Af sameiningu prestakalla

Deildu þessu:

Af sameiningu prestakalla – Þingeyjarprestakall

Um miðjan ágúst síðastliðinn samþykkti biskupafundur tillögu þess efnis að sameina skyldi Húsavíkur– Skútustaða– og Grenjaðarstaðarprestaköll. Þessi tillaga var send prestum og sóknarnefndafólki. Tillagan var kynnt á Héraðsfundi Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastdæmis, sem  ályktaði um málið 27. ágúst. Þar var ekki lagst gegn sameiningunni, en lögð áhersla á að unnið yrði áfram að málinu í samvinnu við heimamenn og að sameiningin leiddi ekki til skerðingar á kirkjulegri þjónustu á svæðinu.

Kirkjuþing samþykkti sameininguna á fundi sínum 25. október. Breytingin tók gildi 1. nóvember 2022. Hið nýja prestakall hlaut nafnið Þingeyjarprestakall.

Því er ekki að neita að ýmsum hefur þótt þessi sameining hafa borið nokkuð brátt að, ekki var tekið tillit til óska um samtal að undirbúningi eins og tekið var fram í ályktun Héraðsfundar. Sú skoðun hefur komið fram á öllum fundum presta og sóknarnefnafólks sem haldnir hafa verið síðan. Fundað hefur verið með Biskupi Íslands og kirkjuþingsfulltrúum kjördæmisins um málið. Á þessum fundum var  tekið fram að í raun væri heimamönnum algerlega í sjálfs vald sett með hvaða hætti þessi sameinging yrði. Þannig gætu heimamenn ákveðið, ef þeir kysu, að breyta engu í kirkjulegu starfi frá því sem verið hefur á svæðinu. Eina breytingin sem ekki væri hægt að komast hjá er sú, að nú skal færa allar upplýsingar um athafnir í hinu sameinaða prestakalli, í eina prestsþjónustubók, í stað þriggja og einn sóknarprestur hefur umsjón með. Biskup Íslands fékk fyrirspurn á sameiginlegum fundi sókna, hvert markmið með sameiningu væri og svaraði því til að það er m.a. til að jafna þjónustubyrði hjá prestum og auka samstarf.

Við prestar hins sameinaða prestakalls erum sammála kirkjuþingsfólki kjördæmisins að því leyti, að heimamönnum er í sjálfs vald sett hversu mikil samvinna og sameingin verður í raun í hinu nýja prestakalli. Sóknirnar halda áfram sjálfstæði sínu eins og verið hefur.

Kirkjustarf þessa vetrar hafði þegar verið skipulagt fram í júnílok 2023 og sáum við enga ástæðu til að breyta því. Í ljósi þeirra funda sem haldnir hafa verið í sameiginlegu prestakalli, hyggjumst við prestar eiga samtal á næstu 6-12 mánuðum við sóknarnefndirnar um óskir og hugmyndir varðandi safnaðarstarf í hinu nýja prestakalli. Hver prestur sinnir því áfram fyrst og fremst skyldum sínum við sóknarbörn í sínum sóknum, líkt og verið hefur, þar til skýrari mynd verður komin á safnaðarstarfið í Þingeyjarprestakalli.Það er ásetningur og vilji okkar prestanna að samvinna og samstarf gangi með sóma og þessi breyting sem orðin er, verði til að efla kristilegt starf á svæðinu.

Sr. Þorgrímur Daníelsson. Sr. Örnólfur J. Ólafsson og sr.Sólveig Halla Kristjánsdóttir.