Taizemessa – sunnudagskvöldið 12.febrúar

Deildu þessu:

Verið velkomin til Taizemessu í kirkjunni okkar kl. 20.00 næsta sunnudagskvöld

Taizé-messa er ekki hefðbundin guðsþjónusta, heldur n.k. kyrrðarstund, þar sem staldrað er við í asa hversdagsins og andartakið tekið frá til að eiga stund með Guði og sjálfum sér.

Sálmarnir eru all flestir svokallaðir Taize sálmar, einfaldir bæna- og lofgjörðarsálmar. Kórinn leiðir sönginn undir stjórn Attila.

En hvað er Taize ? Taizé-söngur á uppruna sinn í samnefndu sveitaþorpi í Frakklandi. Allt frá síðari heimsstyrjöld hefur evangelískt bræðrafélag haft þar aðsetur sitt og mótað einfalt helgihald, sem hefur samfélag og frið milli manna og þjóða að markmiði sínu. Margt fólk heimsækir Taizé ár hvert og flytur með sér hugsjónina og söngvana heim. Enda gætir áhrifa Taizé um allan heim, ekki síst í samkirkjulegu starfi, þar sem lögð er áhersla á systkinasamfélag allra kristinna manna.

Hér á Íslandi hafa Taizé-messur verið haldnar víða og með mismunandi sniði. Tvennt er þó ávallt haft í heiðri, söngvarnir, sem kenndir eru við Taizé, og markmiðið, að miðla sátt og einingu. Látið sættast við Guð, segir í helgri bók (II. Kor. 5.20). Taizé-kvöldsöngurinn hjálpar okkur að ná sáttum, að sættast við okkur sjálf, annað fólk, lífið og Guð. Verið velkomin