Sunnudagaskólinn hafinn

Deildu þessu:

Í byrjun október hófst sunnudagaskólinn okkar. Umsjón hefur Húsavíkurprestur en ásamt presti eru það Heiðrún Magnúsdóttir, Frímann Sveinsson og Sólveig Jónsdóttir sem koma að samverustundunum.  Sunnudagaskólinn er samvera þar sem við gefum okkur tíma til að gleðjast, læra, ræða um tilfinningar eins og t.d. ótta og kvíða, vonbrigði, leiða, samkennd, tilhlökkun og æfum okkur líka í að samgleðjast öðrum. Gildum eins og vinátta, hjálpsemi og hugrekki er lyft upp og umfram allt þá biðjum við í trú og von og ræktum kærleikann.

Samverurnar byggja á einföldum sunnudagaskólasöngvum, einföldum bænaversum sem biblíugoggurinn hefur að geyma, fjársjóðskistan er á sínum stað en í henni finnst vísbending um biblíusögu dagsins. Biblíusaga dagsins er oftast endursögð með myndum en stundum horfum við saman á myndband. Brúðurnar Mýsla og Rebbi heilsa oftast upp á sunnudagaskólagesti og boðskapur biblíusögunnar er oft þema í þeim leikritum. Síðan er brugðið á leik, okkur finnst sérstaklega gaman að syngja Töfrasönginn, Í grænni lautu og einnig er leikurinn Englar koma í heimsókn vinsæll. Börn sem fagnað hafa afmæli í mánuðinum sem er að líða fá síðan lítinn glaðning frá kirkjunni sinni.

Fermingarbörn aðstoða í vetur með ýmsum hætti:Leika Mýslu og Rebba, leiða söng eða eru tæknimenn á tölvunni. Síðan þarf líka að skera niður ávexti, blanda djús og hella upp á kaffi, því að lokinni samveru er gott að setjast niður og börnin lita, fá sér hressingu og við spjöllum saman. Öll börn fá fjársjóðskistu sem þau safna myndakortum í og á kortunum er að finna QR-kóða sem geymir góðar hugmyndir að samveru  með börnunum.

Við fögnum öllum sem koma og erum þakklát fyrir þessar dýrmætu samverustundir. Sjáumst í sunnudagaskólanum.

Hér eru nokkrar myndir frá fyrstu samverunum