Skírn

Skírnin er trúarathöfn þar sem beðið er fyrir barninu og fjölskyldu þess. Í skírninni þökkum við Guði fyrir barnið og biðjum Guð að vera nálægt því í öllu lífi þess. Barnið er blessað og tekið í samfélag kristinna og söfnuð kirkjunnar.

Velkomið er að hafa samband við sóknarprest til að óska eftir skírn, hægt er að hringja í síma 464 1317 (á viðtalstíma, kl. 10.00 -12.00, þri-fim.) eða senda erindið í tölvupósti á netfangið: solveigk@kirkjan.is Prestur leiðir stundina en gjarnan koma fjölskyldumeðlimir að henni á einn eða annan hátt, t.d. með því að fara með bæn, lesa ritningarlestur eða syngja.

Meginreglan er sú að barn sé skírt í kirkju og að viðstöddum söfnuði, þ.e. í messu eða í sérstakri athöfn í kirkju þar sem fjölskylda skírnarbarns og vinir eru fulltrúar safnaðarins. En gömul íslensk hefð er fyrir því á Íslandi að skírn geti farið fram á heimili barnsins.

Aðstandendur velja barninu skírnarvotta. Skírnarvottar (heita einnig guðfeðgin) eru aldrei færri en tveir, en mest geta verið fimm. Æskilegt er að í það minnsta einn skírnarvottanna sé á þeim aldri að hann geti fylgt barninu eftir til fullorðinsára. Foreldrar og guðfeðgin játa trúna fyrir hönd barnsins og skuldbinda sig þar með til að ala barnið upp í kristinni trú.

Kirkjan kemur til móts við foreldra með því að bjóða til barnastarfs í söfnuðinum. Það er gæfa margra barna að eignast í vöggugjöf trú á Guð og bænina. Börn sem læra vers og bænir, heima og í kirkjunni, búa að því allt lífið. Bænin er besta veganestið til lífsferðar. 

“Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá til nafns föður, sonar og hins heilaga anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hefi boðið yður. Og sjá, ég er með yður alla daga, allt til enda veraldar.”