Skírdagur

Deildu þessu:

Á Skírdegi minnast kristnir menn þess þegar Jesús þvoði fætur lærisveinanna og átti síðustu kvöldmáltíðina með þeim. Hér er bæn á Skírdegi úr Bænabókinni: ,,Allir þeir tólf fengu að vera með. Þú gafst þeim brauð og vín, líka honum sem sveik þig. Þeir sem sofnuðu, þeir sem efuðust, þeir sem flýðu og földu sig, þeir fengu líka að vera með. Líka hann sem rétt á eftir sagði: Þann mann þekki ég ekki!  Í þínum augum var enginn sem ekki var verðugur, þroskaður, hæfur. Líka ég fæ að vera með.” ,, Líkami Krists, lífsins brauð”  segir presturinn þegar hann réttir þér altarisbrauðið. Það er brauðið sem Kristur tók í hönd sér, blessaði og braut það og gaf lærisveinum sínum og sagði: ,,Fyrir þig gefið til fyrirgefningar syndanna.” Hann er brauð lífsins, sem gaf líf sitt heiminum til lífs.