Það ætti ekki að hafa farið framhjá sóknarbörnum að aldarafmælis Húsavíkurkirkju verður minnst um helgina með veglegum hætti. Afmælisnefndin hefur verið vakin og sofin í þágu verkefnisins undanfarna mánuði. Formaður nefndarinnar er Helga Jónína Stefánsdóttir, meðstjórnendur auk sóknarprests eru Hreiðar Karlsson, Björn G. Jónsson og Frímann Sveinsson.Afraksturinnn er glæsileg dagskrá þar sem flestir eiga að finna eitthvað við sitt hæfi. Afmælisnefndin hvetur fólk að láta dagskrána ekki framhjá sér fara og taka með sér gesti, Við viljum sérstaklega vekja athygli á tónleikunum á föstudagskvöldið kl.20, hátíðarmessunni á laugardag kl. 14 og opnun kirkjusögusýningarinnar sama dag kl. 16 í Safnahúsinu en undirbúningur hennar hefur verið í höndum Guðna Halldórssonar, Sigurjóns Jóhannessonar og Péturs Jónassonar.Messan verður einstakur sögulegur viðburður því að þar munu þjóna fyrrverandi prestar við kirkjuna auk sóknarprests og vígslubiskups á Hólum sem mun prédika. Umgjörðin er einstök og fögur listasmíð, Húsavíkurkirkja sem ber höfundi sínum Rögnvaldi Ólafssyni fagurt vitni, reist Guð til dýrðar og vígð 2. júní 1907. Sóknarbörn eru stolt af kirkjunni sinni og hafa auðsýnt henni ræktarsemi og sóma í tilefni afmælisins eins og svo oft áður. Fyrir Prestastefnuna lagði ég inn gott orð til himnaföðurins og bað um gott veður. Ég var þá bænheyrður. Ég sé ekki betur en að ég verði bænheyrður aftur vegna afmælishátíðarinnar. Ég hef aldrei verið talinn mjög bænheitur maður. Öðru vísi mér áður brá. Sóknarbörn, til hamingju með afmælið. /sk