Visitasíu biskups frú Agnesar Sigurðardóttur lauk með fjölmennri guðsþjónustu s.l. mánudagskvöld sem um 200 kirkjugestir sóttu. Góður rómur var gerður að prédikun biskups sem lagði út af guðspjallinu um látinn einkason ekkjunnar frá Nain. Fermingarbörn lásu ritningarlestra og aðstoðuðu í kirkjudyrum. Stúlknakór Húsavíkur söng tvö lög undir stjórn Ástu Magnúsdóttur tónlistarkennara og uppskáru mikið lófaklapp.
Kirkjukór Húsavíkur annaðist messu og sálmasöng undir stjórn Judit György. Biskup lét þess sérstaklega getið hversu góður Kirkjukór Húsavíkur væri.
Biskup ávarpaði börnin í guðsþjónustunni og gaf þeim kross sem er mynd af krossi sem var lengi í Upsakirkju í Svarfaðardal en er nú varðveittur á Þjóðminjasafni Íslands.
Að lokinni guðsþjónustu skoðaði biskup kirkjuna og einstaka gripi hennar. Sveitarstjórn Norðurþings bauð biskupi í hádegisverð í Sölku.
Síðan var haldið í Norðlenska þar sem vinnslulínan var skoðuð með Sigmundi Hreiðarssyni í viðeigandi hlífðarfatnaði frá tá og upp úr. Biskup heimsótti síðan geðræktarmiðstöðina Setrið og Miðjuna. Fór síðan í heimsókn á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. Ásgeir Böðvarsson yfirlæknir veitti þar leiðsögn. Þar heilsaði biskup öldruðum í Skógarbrekku og hlýddi á tónlistarflutning HeilsutríosinsAð því loknu var farið á Dvalarheimilið Hvamm þar sem biskup fékk höfðinglegar móttökur og þáði veitingar og ávarpaði gamla fólkið.
Síðan var litið við á sambýlinu í Pálsgarði. Biskup átti síðan fund með sóknarnefnd sem bauð að lokum til kvöldverðar fyrir guðsþjónustu.
Virkilega ánægjulegur visitasíudagur að baki sem verður lengi í minnum hafður.