Krílasálmar á foreldramorgni

Deildu þessu:

Veturinn var kvaddur með krílasálmum í dag. Sigrún Magna Þórsteinsdóttir, organisti við Akureyrarkirkju, hitti foreldra og ungabörn þeirra og leiddi samveruna. Krílasálmar eiga rætur sínar að rekja til Danmerkur og er þýðing á Babysalmesange. Sigrún Magna hefur haldið fjölda Krílasálma- námskeiða og kom fyrst til Húsavíkur árið 2012, en þetta er fjórða sinn sem hún kemur til okkar. Alls voru 13 mæður sem komu í dag með börnin og nutu ánægjulegrar stundar. Á krílasálmanámskeiðum eru kennd ýmis lög og leikir  og lögð áhersla á tengsl snertingar, söngs og hreyfingu. Notast við tónlist kirkjunnar en einnig önnur þekkt barnalög, leiki og þulur. Megintilgangur í krílasálmasamveru er að veita börnunum gleði í upplifun af tónlist og söng og að kenna foreldrum hvernig nota má söng og tónlist til aukinna tengsla og örvunar við börnin þeirra. Einnig að örva tilfinninga- og hreyfiþroska barnsins í gegnum tónlistariðkun.