Kirkjusögulegur viðburður á Húsavík

Deildu þessu:

 

Fyrsti sunnudagur í aðventu árið 2009 verður lengi í minnum hafður í kirkjusögu Húsavíkur. Hólabiskup, sr. Jón A Baldvinsson  heimsótti söfnuðinn formlega í fyrsta skipti og gaf sig á tal við safnaðarfólk í Bjarnahúsi. Hann helgaði altarisklæði í Biskupsmessu þar sem Kirkjukór Húsavíkur söng undir stjórn kirkjuorganistans Judit György en sóknarprestur þjónaði fyrir altari. Húsavíkurkirkja fól Oddnýju Magnúsdóttur að vefa altarisklæðið fyrir kirkjuna í minningu Sigurðar Péturs Björnssonar sem var safnaðarfulltrúi í sóknarnefnd í áratugi. Kvenfélag Húsavíkur gaf kr. 100.000 til kaupanna.

Einnig helgaði Hólabiskup göngukross fyrir kirkjuna og Bjarnahús sem Sigmar Stefánsson frá Rein smíðaði úr hvítri eik en brík fylgir. Hann gaf Húsavíkurkirkju krossinn og bríkina af þessu tilefni. Sóknarprestur færði honum hugheilar þakkir fyrir gjöfina en um völundarsmíð er að ræða sem hann smíðaði á einni viku. Mannvit verkfræðistofa á Húsavík gaf tvo kertastjaka af silfri sem hvíla á bríkinni.  

Hólabiskup flutti góða ræðu sem 140 kirkjugestir hlýddu á. Að lokinni blessun hófst helgunarathöfn Bjarnahúss sem reist var sama ár og kirkjan, árið 1907. Sóknarprestur tók þátt í henni ásamt Hólabiskupi og fulltrúum ungu kynslóðarinnar á Húsavík sem báru kross, helgisiðabók og Biblíu til Bjarnahúss en Biblíuna gaf Hólabiskup Bjarnahúsi af þessu tilefni. Hólabiskup ávarpaði söfnuðinn við dyr Bjarnahúss áður en gengið var inn. Þar var krossinum komið fyrir á vegg  í norðurenda í stofu hússins og Hólabiskup helgaði húsið og lýsti því yfir að það væri nú frátekið þjónustunni við Guð og helgað fræðslunni um hann.

Síðan ávarpaði Helga Kristinsdóttir, formaður sóknarnefndar safnaðarfólk í Bjarnahúsi sem var á annað hundrað. Sigurjón Jóhannesson rakti sögu hússins í merku erindi og Egill Olgeirsson rakti framkvæmdasögu hússins frá því að söfnuðurinn eignaðist það. Í máli hans kom fram að kostnaðaráætlanir sóknarnefndar varðandi húsið til þessa hafi staðist í megindráttum. Það eru gleðileg tíðindi.  Sóknarnefndin bauð síðan upp á súpu og brauð, kaffi og konfekt. Af undirtektum er óhætt að segja að söfnuðurinn geti verið ánægður með útkomuna og horft björtum augum til framtíðarinnar í safnaðarlegu tilliti en fjölmörg sóknarfæri fæðast með tilkomu Bjarnahúss sem safnaðarheimili.

Um kvöldið söng Gospelkór Húsavíkurkirkju Poppmessu ásamt hljómsveit í kirkjunni að viðstöddu fjölmenni við góðar undirtektir. Prófastur Þingeyinga, sr. Jón Ármann Gíslason flutti hugvekju og sóknarprestur flutti bænarorð og blessun.  

Það er ekki hægt að segja annað en að kórar kirkjunnar hafi sungið aðventuna rækilega inn á þessum degi og að söfnuðurinn geti verið stoltur af báðum kórunum sínum í upphafi aðventu á því Herrans ári 2009.

 

Sr. Sighvatur Karlsson, sóknarprestur