Kirkjulýsing

Deildu þessu:

Húsavíkurkirkja núverandi var vígð 2. júní 1907. Rögnvaldur Ólafsson arkitekt teiknaði kirkjuna sem er krosskirkja, byggð úr norskum við. Rögnvaldur var fyrsti Íslendingurinn sem nam byggingarlist og raunar fyrsti nútíma húsameistarinn sem Íslendingar eignuðust. Margir telja að Húsavíkurkirkja sé hans fegursta verk og lofi meistara sinn.

Aðalhleðslumaður við grunn kirkjunnar var Jón Ármann Árnason steinsmiður, Fossi, Húsavík. Yfirsmiður var Páll Kristjánsson smiður og kaupmaður á Húsavík.

Húsavíkurkirkja er með sterkum einkennum svonefnds Schweitzerstíls sem þróaðist í Noregi á seinni hluta 19. aldar og ættaður var frá Sviss. Aðeins eitt ár tók að byggja Húsavíkurkirkju.

Húsavíkurkirkja er 24.5 álnir frá austri til vesturs, 24 álnir frá norðri til suðurs, vegghæð 10 álnir og hæðin í turnkross 40 álnir. Vita aðaldyr mót vestri en aðrar dyr eru að sunnan á austurálmu. Kross er á hverri álmu og utan um hann hringur, tákn eilífðarinnar. Er fyrirmyndin líklega keltnesk.

Loft er yfir þremur álmum, ekki yfir kór í austurálmu og var söngkór staðsettur á suðurlofti í fyrstu en fluttur á vesturloft 1943 að tillögu Sigurðar Birkis söngmálastjóra sem þá gekkst fyrir stofnun Kirkjukórs Húsavíkur.

Fimm langbekkir með bökum eru á suður-og norðurlofti á hallandi gólfi sem hækkar upp við vegg. Handrið með ljósum spjaldreitum lokar álmunum þremur neðanvert. Í suðausturhorni uppi er lítið geymsluherbergi sem gengið er upp í frá suðurdyrum. Neðan undir því var líkhús við útivegg en skrúðhús við kór og var gengið í þau úr forstofu. Þessi tvö smáhýsi voru gerð að einu skrúðhúsi 1957 enda þá komið líkhús við gamla sjúkrahúsið.

Í miðkirkju eru ellefu þverbekkir og einn baklaus við vesturvegg. Tveir langbekkir eru til hliðanna og krókbekkur við útveggi sitt hvorum megin. Sex frítt standandi súlur bera uppi loftskarir, tvær í hverri álmu. Upp í kór liggja tvær tröppur og afmarkast hann af grindverki til hliðar við uppgönguna og meðfram henni. Undir kirkjunni að austan er lítill kjallari og þar var kyndiklefi. Nú er hitaveitan þar sem áður var kolaofninn. Þarna er líka snyrting og aðstaða til að hita kaffi. Kirkjugangur er ekki eftir miðri kirkju, heldur liggur hann úr forstofu um norðurálmu meðfram kirkjuskipi og beygir síðan þvert með kór. Útihurð kirkjunnar að vestanverðu er úr eik með koparhandfangi og áletrun: ,,Húsavíkurkirkja Anno MCMVII”. Digur lykill gengur að lás hurðarinnar. Hurðina gáfu feðgarnir Þórður og Stefán Guðjohnsen kaupmenn á Húsavík. Handhringt var í kirkjunni til ársins 1953, er settar voru upp tvær koparklukkur tengdar rafmagni. Var önnur gjöf frá Rotaryklúbbi Húsavíkur en hin var keypt fyrir safnaðarfé. Hægt er að opna hlera á hliðum turnsins og er það gert þegar hringt er til messu til þess að víðar heyrist.

Athygli vekur hjá þeim sem í fyrsta sinn koma í Húsavíkurkirkju að þar er engan predikunarstól að finna en útskorið opið bókarlíki, fest á kórgrindur, kemur í stað predikunarstóls. Jóhann Björnsson útskurðarmeistari á Húsavík skar út bókarlíkið, skírnarsáinn og aðra útskorna gripi kirkjunnar. Freymóður Jóhannsson listmálari málaði og skreytti kirkjuna að innan 1924. Athyglisvert er hve marga liti listamaðurinn notaði sem þó eru allir í samhljóman. Kirkjunni hefur verið haldið við í upprunalegum litum og allar skreytingar hinar sömu og í upphafi, er þær voru gerðar.

Sveinn Þórarinsson listmálari frá Kílakoti, Kelduhverfi málaði altaristöflu kirkjunnar 1930-1931 og sýnir hún upprisu Lasarusar. Altaristaflan er fyrir margra hluta sakir merkileg. Landslag í bakgrunni hennar telja ýmsir sig þekkja úr íslensku umhverfi, m.a. keimlík fjöll úr Öxarfirði og hraungjár úr Kelduhverfi. Einnig var haft á orði að listamaðurinn notaði andlit sveitunga sinna sem fyrirmynd að fólki á altaristöflunni. Það er einnig merkilegt að Lasarus rís upp úr íslenskri gröf og má sjá hraungrýtið rísa beggja megin við Lasarus. Á tímum Lasarusar var venja að lík væru lögð í helli. Söguna um upprisu Lasarusar er hægt að lesa í Jóhannesarguðspjalli 11. kafla. Ekki voru allir á eitt sáttir um altaristöfluna. Nú þykir hún ein mesta prýði hennar.

Merkastir gripa kirkjunnar þykja tveir kertastjakar frá 1640.Peder Hansen, kaupmaður gaf stjakana. Pípuorgel kirkjunnar var keypt frá Danmörku af fyrirtækinu I Starup & sön og var vígt 8. nóv. 1964. Kirkjubekkir og bök voru mýkt með svampi og íslensku ullarklæði í lok árs 1974.  Fyrir aldarafmælið voru sessurnar endurnýjaðar og bríkur fyrir sálmabækur lagfærðar. Ljós kirkjunnar voru endurnýjuð árið 2000 og voru þá settar upp fjórar ljósakrónur frá Noregi í stíl við aðra stærri sem Kvenfélag Húsavíkur gaf 1933 en kvenfélagið hefur frá upphafi sinnt kirkjunni vel og látið sig hana varða. Allir ljóskastarar voru fjarlægðir og sett upp óbein lýsing á skammbita á sama tíma. Þá var settur upp einn ljóskastari til að varpa birtu á altaristöfluna.

Auk þess að vera guðshús hefur kirkjan þjónað sem tónlistarhús um langan aldur þar sem tónlistarfólk innlent og erlent hefir komið fram. Kirkjan er talin rúma um 450 manns í sæti en þegar hún var byggð voru íbúar Húsavíkur liðlega 500.

Kirkjan var friðlýst 1982.

Kirkja og prestur hafa verið á Húsavík frá fornu fari. Guðmundur Arason biskup dvaldi á Húsavík um stundarsakir 1231 og má ætla að þá hafi verið þar kirkja. Kirkju er getið á Húsavík í Auðunarmáldaga 1318. Kunnastir presta á Húsavík frá fyrri tíð eru séra Magnús Einarsson f. um 1675, d. 1728, faðir Skúla Magnússonar landfógeta og Ketill Jónsson, f. um 1698, d. 1778, tengdasonur Magnúsar og faðir Magnúsar Ketilssonar sýslumanns í Búðardal. Af seinni tíma prestum mun séra Friðrik A Friðriksson, f. 17.06 1896- d. 16.11.1981, einna kunnastir. Núverandi sóknarprestur er Séra Sighvatur Karlsson sem vígðist til Húsavíkursóknar 5. október 1986.

Heimildir: Saga Húsavíkur þriðja bindi bls 215 og nýgerður litmyndabæklingur á fimm tungumálum þar sem kirkjunni er lýst af Sigurjóni Jóhannessyni fyrrv. skólastjóra.

sr. Sighvatur Karlsson tók saman.

Gamlar fundargerðir sóknarnefndar Húsavíkursóknar frá 1905-1906:

Ár. 1905, hinn 12.d. Júnímánaðar, var að aflokinni guðsþjónustugerð settur og haldinn hinn venjulegi lögboðni safnaðarfundur fyrir Húsavíkursókn á Húsavík samkvæmt fundarboði sóknarprestsins dags. 5. þ.m. og sem borist hafði um sóknina í tæka tíð. Til skrifara á fundinum tilnefndi sóknarpresturinn, sóknarnefndarmann Jón Guðmundsson. Á fundinum gerðist sem hér segir:

1. Skýrði sóknarnefndin frá því að hún hefð núi látið mála kirkjugarðsgrindurnar, og gera við girðinguna að öðruleyti en því, að enn er eftir að líma með steinlími grjótgarðinn að austanverðu, og var sóknarnefndinni falið að láta gjöra það sem fyrst samkvæmt fundarál. frá f.ár. Ennfremur lagði hún fram reikninga fyrir málningunni og aðgerð þeirri, sem búin e, og afhenti þá frá sér, til niðurjöfnunar.

2. Var gengið til kosningar á safnaðarfulltrúa og þrem sóknarnefndarmönnum fyrir næsta ár og hlutu kosningu: sem safnaðarfulltrúi: Aðalst. Kristjánsson með 12 atkv. og sóknarnefnd: Aðalst. Kristjánss með 28 at. Páll Sigurðsson með 22 at. Og Sigtr. Pétursson með 29 atkv.

3. Var rætt um söngstjóra í kirkjunni næsta ár og út af því kom fram eftirfarandi tillaga: Fundurinn felur hinni nýkosnu sóknarnefnd að sjá um söng í kirkjunni næstkomandi ár og má hún verja allt að 100 kr. til þess. Skal nokkur hluti þessa fjár leggjast í sjóð undir umsjón sóknarnefndar til væntanlegra umbóta á söng í kirkjunni síðar. Tillagan var samþykkt með 28 gegn 17 atkvæðum.

4. Var skýrt frá hvað komið er nú kirkjubyggingarmálum, og var út af því samþykkt að kjósa 5 menn til þess að aðstoða sóknarnefndina við hina væntanlegu kirkjubyggingu, og voru kosnir í þessa nefnd með öllum greiddum atkv. þeir: Stefán Guðjohnsen, Jakob Hálfdánarson, Steingr. Sýslum. Jónsson, Egill Sigurjónsson í Laxamýri og Hálfdán Jakobsson á Héðinshöfða.

Fleira gerðist ekki: Fundi slitið.

Sign. Jón Arason Jón Guðmundsson

Sóknarnefndargjörð:

Árið 1905, miðvikudaginn 19. Júlímánaðar hélt sóknarnefndin í Húsavíkurprestakalli fund með nefndarmönnum þeim, er kosnir voru á safnaðarfundi 17. júní síðastliðis til aðstoðar við framkvæmd á væntanlegri kirkjubyggingu. Á fundinum voru allir nefndarmenn mættir ásamt sóknarprestinum. Á fundinum gjörðist það, er hér segir:

Verslunarstjóri Stefán Guðjohnsen skýrði frá því að Örum og Wulf verzlunareigendur hefðu gefið Húsavíkurkirkju 1000 kr. lýstu nefndarmenn ánægju yfir slíkri rausn og kom saman um það, að fela einum nefndarmanni, Steingrími Sýslumanni Jónssyni að semja þakkarorð til gefendanna og koma þeim á prent í tveimur dagblöðum landsins.

Því næst voru lagðar fram tvær teikningar af kirkju frá cand. Rögnvaldi Ólafssyni í Reykjavík ásamt lýsingu á þeim og bréfi til kirkjubyggingarnefndarinnar. Eftir að nefndarmenn höfðu skoðað uppdrættina allýtarlega og yfirfarið lýsinguna á þeim álitu þeir heppilegra að einn nefndarmanna ætti tal við teikningameistarann, einkum þar sem þeim virtist sýnishorn, krosskirkjulagið B. ekki svo ljóst og jafnvel að sumu leyti athugavert, að nauðsynlegt væri að fá nákvæmari lýsingu og útskýringu á þeirri teikningu til þess að öllum nefndarmönnum þætti það jafn aðgengilegt og langkirkjusýnishornið. Jakob borgari Hálfdánarson gaf kost á sér fyrir þóknun að fara til fundar við húsagerðarmeistarann til Ísafjarðar, voru nefndarmenn því samþykkir að verja til þess 50 krónum af sjóði kirkjunnar. Var þvínæst tveimur nefndarmönnum, þeim Steingrími sýslumanni Jónssyni og Aðalsteini Kristjánssyni falið að semja athugasemdir um krosskirkjusýnishornið eftir því sem fram hafði komið á fundinum og senda þær ásamt teikningunum til hans.

Fleira gerðist ekki á fundinum. Fundargerðin lesin upp og samþykkt. Fundi slitið.

Sign. Jón Arason

1905

Ár 1905, .þriðjudaginn 14. Nóvember hélt sóknarnefndin í Húsavíkurprestakalli fund ásamt aðstoðarnefndinni í kirkjubyggingarmálinu. Allir nefndarmenn voru mættir. Var þar tekið til yfirvegunar hvar hin nýja kirkja skyldi standa. Eftir að nefndin hafði skoðað svæðið austan við aðalveginn, þar sem þurrabúðin Róm áður stóð, var það einhuga ályktun nefndarinnar að kirkjan væri látin standa þar. Umráðamaður lóðarinnar, Stefán verzlunarstjóri Guðjohnsen lýsti því yfir að hann í umboði húsbænda sinna leyfði þar hæfilega lóð fyrir kirkjuna að því tilskyldu að hún snerti ekki stakkstæðið.

Þá var rætt um upptöku á grjóti í grunn til hinnar fyrirhuguðu kirkju, og var nefndin sammála um það að það yrði að vinda bráðan bug að því. Í tilefni þar af skoraði nefndin á sóknarprestinn, að boða til almenns safnaðarfundar til að ráðgast um fyrirkomulag á grjót-og grunnvinnunni. Sóknarnefndarmaður Aðalsteinn Kristjánsson var kosinn formaður og reikningshaldari sóknarnefndarinnar við væntanleg störf að grunn- og kirkjubyggingunni með öllum atkvæðum. Á fundinum kom til tals að fá grjót hjá séra Jóni úr görðunum í kringum Stóragarð, bar Steingrímur sýslumaður Jónsson fram tillögu um það, að Aðalsteini Kristjánssyni yrð veitt heimild til að semja við séra Jón um kaup á grjótinu úr austur-og vesturgarðinum fyrir allt að 100 kr. Þessi tillaga var borin upp til atkvæða og felld með jöfnum atkvæðum. Þá var skorað á sóknarnefndina að sjá um að sem fyrst yrði farið að vinna við grjótupptöku og var Sóknarnefndarmanni Sigtryggi Péturssyni falið að sjá um það.

Fleira gerðist ekki á fundi. Fundargerðin lesin upp og samþykkt. Fundi slitið.

Sign. Jón Arason.

Ár 1905 þ. 19. Nóvember var almennur aukasafnaðarfundur settur og haldinn samkvæmt fundarboði dags. 16. þ.m. er borist hafði um alla sóknina. Á fundinum voru mættir um 50 sóknarmenn, atkvæðisbærir. Fundarmálefni voru þessi:

1. Almenn skýrsla gefin um framkvæmdir þær, er gjörðar hafa verið viðvíkjandi kirkjubyggingunni. Jakob Hálfdánarson skýrði frá teikningum Rögnvaldar Ólafssonar og hverju nefndin hefði hallast að, krosskirkjunni með nokkrum breytingum.

2. Þá gaf Steingrímur sýslumaður Jónsson skýrslu um kirkjustæði það, er nefndin hafði valið, og skýrði frá ástæðum nefndarinnar fyrir því. Enginn fundarmanna gerði neinar athugasemdir við skýrslur þessar.

3. Rætt var um grjótupptöku og flutning á því. Sigtr. Pétursson lýsti því yfir að hann væri búinn að taka upp allt að 10-20 teningsföðmum fyrir ofan Þorvaldsstaði nálægt akstursleið. Eftir nokkrar umræður kom fram svohljóðandi tillaga frá einum fundarmanna og var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum: “Fundurinn samþykkir að í viðbót við hið upptekna grjót séu enn teknir upp 6 faðmar af mjög góðu grjóti; og fáist það ekki laust þá séu sprengdar klappir”.

Í tilefni af niðurjöfnun á kostnaði við grjót og grunn, var borin upp og samþykkt með öllum atkvæðum svohljóðandi tillaga: “Fundurinn skorar á sóknarnefndina að sjá um að grjót það er á vantar, verði, sem allra fyrst tekið upp, og byrjað á flutningi svo fljótt sem tækifæri gefst, og sömuleiðis gefur fundurinn sóknarnefndinni heimild til að jafna niður og innheimta kr. 500.00 fyrir nýár næsta upp í kostnað við upptekt og flutning á grjóti.

4. Þá var tekið til umræðu kjallari undir parti af kirkjunni til upphitunar. Svohljóðandi tillaga var borin upp

og samþykkt með öllum atkvæðum í því máli: “Fundurinn samþykkir að aðhyllast upphitun með ofni í kjallara, ef kirkjubyggingarnefndin ekki álítur að það hafi svo mikinn kostnaðarauka í för með sér, að hún sjái það ekki fært”.

Fleira kom ekki til umræðu. Fundargerðin lesin upp og samþykkt. Fundi slitið.

Sign. Jón Arason

1905

Ár. 1905 mánudaginn 27. Nóv. hélt sóknarnefndin í Húsavíkursókn fund til að jafna niður sönggjaldi fyrir yfirstandandi ár að upphæð kr. 60, svo og kirkjugarðsgjaldi, viðgerð á kirkjugarðinum, á liðnu sumri, að upphæð nál. 76 kr. og ennfremur 500 kr. til kirkjugrunns samkv. síðustu fundargerð. Skráin var auglýst til sýnis á kirkjustaðnum. Fleira gerðist ekki á fundi. Fundi slitið.

Sign. Jón Arason

Ár 1905, 30. Nóv. hélt sóknarnefndin í Húsavíkursókn fund ásamt aðstoðarnefndinni í kirkjubyggingarmálinu. Allir nefndarmenn mættir nema Egill Sigurjónsson á Laxamýri og Hálfdán Jakobsson á Héðinshöfða. Fundarmálefni var: að ræða um ráðningu á smiðum við væntanlega kirkjubyggingu.

Þá er menn höfðu rætt málið fram og aftur var það einhuga tillaga nefndarinnar, að tveir smiðir yrðu ráðnir nú þegar, þeir Páll Kristjánsson og Jón Eyjólfsson báðir á Húsavík. Páll sem yfirsmiður og verkstjóri fyrir 5 kr. kaup á dag, en Jón fyrir allt að 4.00 á dag, tvo dýrustu mánuðina, en 3.50 fyrir hina mánuðina pr. dag. Jafnframt þessari tillögu nefndarinnar, tekur hún það fram að í forföllum Páls, séu aðrir smiðir sem ráðnir kunna að verða, skuldbundnir til að vinna undir verkstjórn hvers annars manns, er nefndin þyrfti að útvega í hans stað. Að öðru leyti felur nefndin sóknarnefndinni að gera samninga við þessa menn, og ætlast til þess að Páll Kristjánsson, sem yfirsmiður, ráði aðra smiði í samráði við nefndina. Nefndin var ennfremur einhuga á því að grennslast eftir því, hvort Rögnvaldur Ólafsson mundi ekki fást til að koma hingað um tíma á komandi sumri til að hafa eftirlit með uppsetningu á kirkjunni og ráða fram úr með það er vandasamast kynni að koma fyrir. Fleira var eigi rætt á fundinum. Fundargerðin lesin upp og samþykkt. Fundi slitið.

Sign. Jón Arason

Ár. 1906 laugardaginn 20. Jan. hélt kirkjubyggingarnefndin fund. Allir mættir nema Hálfdán bóndi Jakobsson á Héðinshöfða. Nefndin hafði meðtekið lista yfir efni til kirkjunnar frá meistara Rögnvaldi Ólafssyni á Ísafirði. Nefndin yfirfór listann og ræddi um timburpöntun. Var Páli Kristjánssyni smið, gefið umboð til að semja við Sigtrygg Jóhannesson timburkaupmann á Akureyri að útvega allt timbur til kirkjunnar og fór hann í þeim erindum næsta dag til Akureyrar. Fundi slitið.

D.U.S. sign. Jón Arason

Ár. 1906, þriðjud. 6. Mars hélt kirkjubyggingarnefndin fund. Allir í nefndinni, nema Steingrímur Jónsson og Hálfdán Jakobsson. Á fundinum var rætt um pöntun á öllu öðru efni til kirkjunnar en trjávið. Kom mönnum saman um að panta það í Kaupfélagi Þingeyinga, að undanteknu pappi og sementi sem Aðalsteini Kristjánssyni var falið að panta. – Nefndin kaus þá Steingrím Jónsson og Pál kaupm. Kristjánsson til að gera samning við “Fjalar” um vinning á timbrinu. Ákveðið var að ráða þá Fossbræður til að vinna að grunnhleðslu, ennfremur kom mönnum saman um að rétt mundi vera að fá duglegan mann til að stjórna grjótverkinu.- Jakob Hálfdánarsyni voru borgaðar 40 krónur úr kirkjusjóðnum fyrir ferð hans síðastliðið sumar til að tala við teiknimeistarann Rögnvald Ólafsson á Ísafirði. Fleira gerðist ekki á fundinum. Fundi slitið.

Sign. Jón Arason.

Ár. 1906, föstudaginn 15. Júní hélt kirkjubyggingarnefndin fund. Allir nefndarmenn á fundi nema Egill Sigurjónsson og Hálfdán Jakobsson. Umræðuefni var það er hér segir: Þar eð auðsætt var að Cement yrði allt of lítið var ályktað að fá lánað Cement svo verki við grunninn yrði haldið áfram.Aðalsteini var falið að panta Cement frá útlöndum. Nefndin fól þeim áður kosnu mönnum Steingrími sýslumanni og Páli Kristjánssyni að semja við “Fjalar” um smíði á gluggum, flestum hurðum og öðrum vinningi á efni, skyldu þeir reyna að fá Eirík Þorbergsson til að taka það að sér fyrir Fjalars hönd. Fengist hann ekk,i þá virtist ekki annað ráð vænna en að taka 1 mann frá kirkjusmíðinni til að vinna með Jóni Baldvínssyni á “Fjalar”. Seinasti úrkostur að panta gluggana innan af Akureyri.

Þá var rætt um tilboð Rögnvaldar um aðalútidyrahurð úr eik. Var ákveðið að láta það bíða.komu hans. Þar næst var samið um kaup 2. sveina er yfirsmiðurinn Páll var farinn að láta starfa að smíði og öðru nauðsynlegu þarað lútandi og var það á þessa leið: Páli Jónssyni sé goldið kr. 2.50 á dag til 30. júní, að þeim degi meðtöldum: kr. 3.00 á dag frá 1. júlí-31. ágúst. Frá 1-20 sept. kr. 2.50 á dag og þar á eftir kr. 2.00 á dag meðan hann er við kirkjusmíðið. Stefáni Jónssyni léttapilti 17 ára ? sé goldið kr. 1.50 á dag fyrir júnímánuð og September. Kr. 2.00 fyrir júlí og ágúst og kr. 1.00 á dag frá 1.október meðan hann er við kirkjubygginguna. Fleira var eigi rætt er bóka skyldi. D.U.Í

Sign. Jón Arason

Safnaðarfundargerð

Árið 1906 sunnudaginn 24. Júní var safnaðarfundur settur og haldinn í fundarhúsi hreppsins samkvæmt fundarboði er borist hafði um sóknina. Fundarstjóri tilnefndi Árna kaupmann Sigurðsson sem skrifara. Á fundinum voru mættir nál. 50 atkvæðisbærir sóknarmenn og gerðist á honum það er hér segir:

1. Lesin upp afhendingargjörð um að kirkjan væri afhend söfnuðinum til umsjónar og fjárhalds. Út af henni kom fram tillaga um að fela hinni væntanlegu sóknarnefnd að gjöra þá kröfu til kirkjustjórnarinnar, að hún annist um og ábyrgist að greiddar verði þær kr. 100, er Þönglabakkakirkja skuldar Húsavíkurkirkju samkvæmt undanfarandi reikningum kirkjunnar. Tillagan samþykkt í einu hljóði.

2. Eftir kröfu og óskum fundarmanna var skýrt frá störfum byggingarnefndarinnar og urðu talsverðar umræður um ýmis smávægileg atriði; var loks samþykkt að slíta umræðunni um það mál.

3. Kosin sóknarnefnd og safnaðarfulltrúi fyrir næsta ár. Kosningu hlutu: Stefán Guðjohnsen verzlunarstjóri með 20 atkvæðum, Steingrímur Jónsson sýslumaður með 18 atkvæðum og Aðalsteinn kaupmaður Kristjánsson með 15 atkvæðum. Safnaðarfulltrúi: Stefán Guðjohnsen með 10 atkvæðum.

4. Rætt um söngstjóra næsta ár. Á fundinum kom fram tilboð frá Stefáni Guðjohnsen fyrir hönd 6 manna að halda uppi söngnum fyrir enga þóknun, ef fundurinn heimilaði sóknarnefndinni að jafna niður 1270 kr. er gengi í sjóð til orgelkaupa í hina nýju kirkju. Einn fundarmanna bar þá tillögu fram að fundurinn heimilaði að jafna niður kr. 100 í því skyni og var sú tillaga samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

5. Þá var kosin nefnd til að semja reglur um hinn fyrirhugaða orgelsjóð og ráða kaupum á orgeli ásamt sóknarnefndinni. Kosningu hlutu; Stefán Guðjohnsen, Gísli Pétursson læknir og Benedikt Sigurgeirsson með flestum greiddum atkvæðum.

Fleira gerðist ekki á fundi. Fundi slitið

Sign. Jón Arason og sign Árni Sigurðsson, skrifari.

Heimild: Fundargerðarbók sóknarnefndar Húsavíkursóknar frá 1905-1906 (í stílabókarformi), varðveitt í Safnahúsinu á Húsavík

Afhending Húsavíkurkirkju í hendur söfnuðinum

Árið 1906 þriðjudaginn 19. júnímán. var Árni prófastur Jónsson á Skútustöðum staddur á Húsavík til þess samkvæmt bréfi biskups f 30 nóv f.á og 3. gr laga 12. maí…1882 um umsjón og fjárhald kirkna, að afhenda kirkjuna þar söfnuðinum í hendur. Hefur málefni þetta fengið formlegan og löglegan undirbúning þannig: að á lögmætum safnaðarfundi 1. apríl 1905 var með 108 af 157 atkvæðum samþykkt að Húsavíkursöfnuður tæki að sér umsjón og fjárhald kirkju sinnar. Var þetta síðan samþykkt af héraðsfundi 30. sept og biskups 30.nóv. s.á. Við afhendinguna sem fram fór eftir síðustu málsgrein 5. gr. Safnaðarlaga voru mættir: sóknarpresturinn sera Jón Arason í Húsavík sem afhendandi og sem viðtakandi fyrir safnaðarins hönd sóknarnefndarmennirnir Aðalsteinn kaupmaður Kristjánsson, Páll Sigurðsson í Jaðri og Sigtryggur Pétursson í Höfða. Kirkjan er afhent í því ásigkomulagi, sem hún nú er. Hún er orðin 66 ára, lítil og ónóg fyrir þarfir safnaðarins, enda þegar afráðið…að byggja nýja kirkju á öðrum stað. Kirkjunni fylgir sjóður hennnar, sem við árslok 1905 var samkvæmt samþykktum reikningi hennar og innfærðum hér að framan kr. 7960.00

Munir kirkjunnar eru afhentir: 1. 2 kirkjuklukkur, 2. Skírnarfontur með renndum tréfæti, 3. Tveir ljósahjálmar, 4. 1 lausa….? 5. Tvær söngtöflur. 6. grafletursspjald. 7. Tveir ljósastjakar úr tini og 1 ljósa…..? úr járni. 8. 1 lélegur ljósastjaki 9. Silfurkaleikur með patínu og patínudúk. 11. Gamall kaleiksbaukur úr tré 12. Altarisdúkur og klæði samfast, rautt. 13. Altarisdúkur rauður með hvítum leggingum. 14. Niðurlagt klæði bláleitt. 15. Tveir höklar og rykkilín

Bækur afhentar. 1 Guðjohnsens…nótnabók, 2. Jónasar fjórraddaða messusöngsbók, 3. Hátíðarsöngvar B. Þorst., 4 eintök. 4. 2 grallarar. 5. 3 nýlegar sálmabækur. Ennfremur afhent “Harmonium” sbr. Úttekt 7. júní 1886. Graftól, 1 járnkarl, 1 mölbrjót.., 3 rekur, 1 prestaspaði, 5 skammel og 4 lausir bekkir og gamall stigi, að endingu talin gömul altaristafla, fornleg.

Er svo kirkjan ásamt framantöldum munum og gripum afhent söfnuðinum í hendur til umsjónar og fjárhalds – með öllum skyldum og réttindum, sem þessu er samfara að lögum.

Það skal tekið fram samkvæmt fyrirmælum biskupsins “að söfnuðurinn öðlast ekki rétt til að nota eða láta nota kirkjuna til neins þess, sem ekki getur samrýmst tilgangi hennar né til að leyfa nokkrum viðkomandi manni aðgang að henni til guðsþjónustugerðar, samkomu eða fundarhalda án vitundar og samþykkis sóknarprestsins”.

Prófastur las upp bréf biskups frá 29. des f.ár. viðvíkjandi verndun forngripa og brýndi efni þess og þýðingu fyrir sóknarnefndinni. Afhendingargjörðinni lokið og upplesin.Sign. Árni Jónsson sign. Jón Arason

Sóknarnefndin samþykkir afhendingargjörðina með þeirri athugasemd að hún telur ekki fullnægjandi skil gjörð fyrir þeim kr. 100.00 sem Þönglabakkakirkja er talin skulda Húsavíkurkirkju í reikningum og sé því eigi afhent nema kr. 7860.00

Sign. Aðalsteinn Kristjánsson, sign. Páll Sigurðsson, sign. Sigtryggur Pétursson.

Prestar á Húsavík frá 1431

Hefur þú lesandi góður athugað hvort þessir prestar séu í framættum þínum?

1431 – ? Jón Skeggjason

1456- 1465 Ólafur Þorgeirsson

1465- 1474 Magnús Ásgrímsson

1474 – ? Hallur Ásgrímsson

1493 – ? Þorsteinn Þorleifsson

1517 – 1535 Ketill Jónsson f. 1498 – d. 1570

1535 – 1579 Kolbeinn Auðunsson. f. um 1500 – d. ?

1592 – ? Jón Jónsson f ? – d. ?

1615 – 1627 Árni Jónsson f. ? – d. 1652

1627 – 1636 Guðmundur Einarsson f. ? – d. 1636

1636 – 1672 Illugi Björnsson f. ? – d. 1673

1672 – 1712 Magnús Illugason f. 1647 – d ?

1712 – 1728 Magnús Einarsson f. 1675 – d. 1728

1728 – 1769 Ketill Jónsson f. 1698 – d, 1778

1769 – 1808 Þorlákur Jónsson f. 1735 – d. 1823

1808 – 1814 Jón Þorsteinsson f. 1781 – d. 1862

1814 – 1820 Helgi Benediktsson f. 1759 – d. 1820

1820 – 1840 Gísli Auðunsson f. 1781 – d. 1842

1836 – 1840 Daníel Jónsson f. 1808 – d. 1865

1840 – 1848 Þorgrímur Arnórsson f. 1809 – d. 1868

1848 – 1876 Jón Ingjaldsson f. 1800 – d. 1876

1877 – 1879 Jón Þorsteinsson f. 1849 – d. 1930

1880 – 1885 Kjartan Einarsson f. 1855 – d. 1913

1886 – 1890 Finnbogi Rútur Magnússon f. 1858 – d. 1890

1891 – 1928 Jón Arason f. 1863 – d. 1928

1928 – 1933 Knútur Arngrímsson f. 1903 – d. 1945

1933 – 1962 Friðrik A Friðriksson f. 1896 – d. 1981

1962 – 1963 Ingólfur Guðmundsson f. 1930 –

1963 – 1986 Björn H. Jónsson f. 1921 – d. 2018

1986 – Sighvatur Karlsson f. 1959 – vígðist til Húsavíkursóknar  5. október s.á.

1932 – 1933 Þorgrímur V Sigurðsson þjónaði

1957 – 1958 Lárus Halldórsson þjónaði.

Heimildir um flesta eldri prestana er að finna í Íslenskum Æviskrám Páls Eggerts Ólafssonar.

Ábendingar og viðbætur eru vel þegnar.