Kirkjan þín og sóknargjöldin

Deildu þessu:

,,MAMMA! Við þurfum að byggja við húsið okkar, en þangað til, má flóttafólk gista í mínu herbergi “ – sagði 5 ára stúlkan við móður sína er hún kom heim úr sunnudagaskólanum.  Hún hafði mætt eins og flest alla sunnudaga í Bjarnahús með ömmu sinni og á leiðinni heim ræddu þær um flóttafólk af því staða flóttafólks og stríðsástand í heiminum hafði komið til tals í sunnudagaskólanum.  Heima litaði hún myndina sem hún fékk, opnaði dulmálið á kirkjukortinu sem fylgdi, þar var að finna hugmynd að samverustund : búa til trölladeig, uppskriftin fylgdi. Síðan setti hún kortið í fjársjóðskistuna sem hún fékk líka í sunnudagaskólanum.

,, Halla, getum við beðið fyrir afa, hann er á sjúkrahúsinu?“ spurt er á TTT fundi- það er komið að lokum og við ljúkum með bæn. Það er bökunarilmur í Bjarnahúsi, nýbakaðar smákökur. Krakkarnir í TTT voru að baka. Meðan kökurnar kólna er farið í leiki, hlátrasköll og læti. Bænastund í lokin: áhyggjur og kvíðaefni sett í orð. Afi er á sjúkrahúsi, hann er mjög lasinn. Framundan eru stærðfræðipróf, tónleikar, íþróttakappleikir, spenna og kvíði takast á í ungum hjörtum. Það er gott að biðja saman. En þetta er síðasti fundurinn af fjórum. Krakkarnir eru svekktir, vilja fleiri fundi, hittast oftar. Presturinn hefur ekki tök vegna anna að vera alla miðvikudaga yfir veturinn og sóknin ekki efni á að greiða fyrir æskulýðsleiðtoga.

,, Það var svo margt sem ég tók með mér“  sagði maðurinn upprifinn en um leið hugsi þegar presturinn spurði hvernig honum fannst á fræðslukvöldi kirkjunnar um daginn.  Salurinn hafði verði þéttsetinn, samfélag fólks sem komið var til að styrkja sig, fræðast og eflast til að vera öðrum styrkur í sorg.

,, Heimsóknin frá sjúkraflutningsmanninum um öryggi og skyndihjálp stóð uppúr“ sagði unga móðirin sem hafði reynt að mæta flesta fimmtudagsmorgna yfir veturinn á foreldra og ungbarnasamveru kirkjunnar. Það var líka gaman að fá Sigrúnu Mögnu organista á Akureyri með krílasálmanámskeiðið sögðu mömmurnar, en bættu við að ekki væri nauðsynlegt að hafa dagskrá, mikilvægast að geta komið saman og átt samfélag.

 

,, Það er frábært að ljúka vinnudeginum í kirkjunni“ sagði unga konan sem kom beint af dagvakt á kyrrðarstund og gong í kirkjunni kl. 17.00- þessi tími hentaði best til að setjast niður, vinda ofan af sér, slaka á og sleppa streitu og áhyggjum og skilja eftir, við notalegan óm gongsins og vera leidd inn í fallega þakkarbæn.

 

Kirkjan er samfélag, vettvangur til að eflast í trú, von og kærleika. Efla tengsl, eiga samtal og styrkjast sem manneskja en líka sem samfélag.

Í hvað fara sóknargjöldin?

Sóknargjöldin fara í laun starfsmanna kirkjunnar ( t.d. organista, leiðtoga sunnudagaskóla og TTT starfi og kirkjuvarðar )

Sóknargjöldin fara í barnastarf t.d. afmælisgjafir barnanna í sunnudagskólanum, myndir og fjársjóðskistur sem börnin eru að safna.

Sóknargjöld fara í efniskostnað til að föndra, baka, skapa listaverk í barna- og fermingarstarfinu. Í starfi þar sem börnin finna að þau eru séð, á þau er hlustað og þau taka þátt í að skapa samveruna.

Sóknargjöld fara í styrki til kórastarfs svo hægt er að kaupa nótur og söngbækur.

Sóknargjöld fara í skírnarkerti, skírnar- og minningarbækur handa skírnarbörnum..

Sóknargjöld fara í hverskonar fræðslustarf svo hægt er að bjóða upp á fræðslu og samtal sem snertir mannlega tilveru.

Sóknargjöld fara í að greiða tónlistarfólki fyrir sinn flutning, er það heimsækir Hvamm, syngur í messu, á fræðslukvöldi eða öðrum samverum og eiga stóran þátt í að að gefa samkomum á vegum safnaðarins dýpt og yndisleika.

Sóknargjöld fara í litlu hlutina, en án þeirra væru samverurnar tómlegri og líka  maginn 😉 við erum að tala um súpuna eftir fræðslukvöld eða  messu, kaffi og meððí, djús, kex, ávexti í sunnudagaskólanum og fermingarfræðslunni, árlegt pizzuhlaðborð fermingarbarna eftir að þau hafa gengið í hús og safnað fyrir Hjálparstarf kirkjunnar og svo framvegis.

Sóknargjöldin fara líka í að halda við kirkjunni þinni og safnaðarheimilinu. Húsbyggingar sem geyma lifandi starf.

Sóknargjöldin fara ekki í laun prestsins eða í yfirstjórn, þau fara í kirkjuna þína og starfið í söfnuði þínum.

Hér er hægt að skrá sig: https://www.skra.is/umsoknir/rafraen-skil/tru-og-lifsskodunarfelag/