Húsfyllir í Bjarnahúsi á fræðslukvöldi- ,,Þú hringir svo bara.”

Deildu þessu:

Það var þétt setið í stofunni í Bjarnahúsi síðastliðið fimmtudagskvöld 9.nóvember. Þá var fyrsta fræðslukvöld kirkjunnar í nóvember mánuði, af þremur. Fyrsta samveran okkar bar yfirskriftina: Ertu aðstandandi aðstandanda? Og Óli Halldórsson flutti framsögu sína sem nefndist: Þú hringir svo bara. Óli ræddi við okkur um sorgina og lagði áherslu á mikilvægi þess að eiga góða að og hvað aðstandendur aðstandenda eru dýrmætur stuðningur á vegi sorgarinnar, þegar áföll og missir mæta okkur. Óli fjallaði m.a. um bjargráð og um gagnlegan stuðning, bæði í sálrænu tilliti sem og öðru og ekki síst flutti hann okkur uppbyggileg og vonarrík orð. Óla Halldórssyni er færðar innilegar þakkir fyrir frábært og uppbyggilegt erindi og samverustund. Næsta fræðslukvöld er 16.nóvember og nefnist Jólin og sorgin. Þá kemur Jóhanna María Eyjólfsdóttir, verkefnastjóri frá Sorgarmiðstöðinni, í heimsókn og flytur erindi og býður upp á samtal. Ruth Ragnarsdóttir og Ísak Már Aðalsteinsson munu flytja ljúfa tóna á samverunni. Síðasta fræðslukvöldið verður síðan fimmtudaginn 23.nóvember þá fáum við heimsókn frá starfsfólki Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis sem kynnir starf félagsins og flytur erindi um þreytu í kjölfar krabbameinsgreiningar. Þá munu Líney Gylfadóttir og Kristján Elinór Helgason flytja okkur hugljúfa tónlist.