Á sunnudaginn, 30.apríl kl. 11 verður fermingarguðsþjónusta, þar sem fjögur ungmenni verða fermd.
Það eru alltaf hátíðlegar og yndislegar stundir þegar ungmennin koma upp að altarinu og staðfesta þá ákvörðun og vilja sinn að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins. Söfnuðurinn, fjölskyldur og vinir fermingarbarnanna biðja fyrir þeim, framtíðinni og óska þeim allra heilla. Hvert og eitt okkar sem eldri erum og höfum fermst, rifjum á þessum studnum kannski upp með sjálfum okkur, hvernig fermingardagurinn okkar var. Kannski manstu hvernig veðrið var þennan dag, hverjir komu til að gleðjast með þér, sumir jafnvel langan veg? Og hvað allt var fínt og glæsileg veisluborð. Einhver minnast þess hvernig borð og stólar voru dreifð um allt hús, hjónaherbergi pabba og mömmu ef til vill snúið við, rúmið sett í geymsluna og veisluborðið sett upp í staðinn ? Svo voru það gjafirnar, kannski áttu einhverja þeirra ennþá? Úr, skartgrip, bók?
Fermingardagurinn er helgaður barninu og ákvörðun þess. Um daginn var ég spurð, hvort allir mættu koma í fermingarmessu, hvort hún væri ekki einkaathöfn fermingarbarnanna og ástvina þeirra. Það er sannarlega svo, að allir eru velkomnir, guðsþjónusta og ferming eru opnar athafnir er svo má að orði komast og kærkomið tækifæri til að styrkja bönd sóknarbarnanna, og leyfa fermingarbörnunum að upplifa það að þau tilheyra samfélagi trúaðra, að þau eru borin á bænarörmum af mörgum. Um leið komum við fram með okkur sjálf, fram fyrir Guð og leggjum líf okkar í hans hendur, þiggjum fyrirbæn, og þiggjum náðarmeðulin, brauð og vín og tökum einnig á móti boðskap og orði Guðs sem lesið er. Það má kannski segja, að við sem höfum þegar fermst, minnumst okkar eigin ákvörðunar um að fylgja Jesú, þegar við signum okkur, hvort sem það er að morgni dags eða í lok hans. Við minnist þessa þegar við signum okkur, setjum krossmarkið á okkur, að við erum helguð Guði, hann þekkir okkur með nafni og hann gengur við hlið okkar, alla daga, allt til enda veraldar. Verið ævinlega velkomin til guðsþjónustu, til samveru í kirkjunni okkar þar sem við eflumst og styrkjumst í trú, von og kærleika.
Ljósmyndari: Gunnar Jóhannesson.
Kveðja, sr. Sólveig Halla