Um 80 manns sóttu Páskavöku í Húsavíkurkirkju um miðnæturbil í þann mund sem Páskahátíðin gekk í garð. Athygli vakti hversu mörg ungmenni voru í þeim hópi sem skemmtu sér vel. Foreldrar fermingarbarna lásu hjálpræðissögu mannkynsins sem endaði á sjö orðum Krists á krossinum. Þá myrkvaðist kirkjan. Páskaljósið barst síðan til kirkjugesta sem minntust í framhaldi skírnar sinnar með því að þiggja vatnskross. Að lokum bauð Norðlenska upp á Páskalambs smökkun í kirkjunni og kirkjugestir þáðu páskaegg í kirkjudyrum þegar haldið var út í nóttina heim á leið.
