Fundargerð Aðalsafnaðarfundar Húsavíkursóknar 28.mars 2007

Deildu þessu:

Á aðalfundinum fluttu eftirtaldir skýrslur sem hér er hægt að lesa: Sólveig Mikaelsdóttir, formaður, sr. Sighvatur Karlsson, sóknarprestur, Óskar Birgisson, æskulýðsfulltrúi, Björn G. Jónsson, safnaðarfulltrúi og Haukur Tryggvason fyrrv. meðhjálpari með meiru.

1. Fundur settur, og skýrsla formanns.

Sólveig setur fundinn og býður alla velkomna og flytur skýrslu sína.

Skýrsla formanns sóknarnefndar vegna ársins 2006.

Formlegir fundir sóknarnefndar voru 9 talsins árið 2006. Fram undir vor var mikið rætt um 100 ára afmæli Húsavíkurkirkju, hvernig því skildi fagnað, hvaða fólk skyldi fá í undirbúningnefnd o.s.frv. Undir vor fengum við svo 5 valinkunna einstaklinga til að vera í afmælisnefndinni og hefur nefndin unnið hörðum höndum að því að gera afmælið sem eftirminnilegast og getum við farið að hlakka til þess.

Kirkjustarfið var öflugt á síðsta ári. Eins og undanfarið ár starfa tveir kórar við kirkjuna. Kirkjukórinn undir stjórn Juditar György og gospelkór undir stjórn Guðna Bragasonar. Barnastarfið og þá sérstaklega KFUM-K undir stjórn Óskars Birgissonar óx og dafnaði á árinu.

Sóknarnefnd ákvað sl. vor að veita viðurkenningar við útskrift nemenda 10. bekkjar Borgarhólsskóla. Framfaraverðlaun voru veitt 5 nemendum, 1 úr hverri bekkjardeild í 9. og 10. bekk sem sýnt hafa framfarir á námstímanum, bæði hvað varðar námið, félagslífið, hegðun, ástundun ofl.

Sumaropnun kirkjunnar var með líku sniði og undanfarin ár, opið í 8-9 klst. á dag og einnig flestar helgar. Má með sanni segja að fáar kirkjur á landinu hafa lengri opnunartíma.

Sóknarnefnd réði að þessu sinni starfsmann í samvinnu við Félagsþjónustu Þingeyinga og greiddi Tryggingastofnun ríkisins hluta af launum starsmannsins. Síðsumars voru prentuð 4000 stk. Af póstkortum með myndum af kirkjunni og seldust þau vel.

Gestir sem komu í kirkjuna sl. sumar voru um 16.000.

Frá því að Kirkjubær var byggður hefur kirkjugarðurinn skuldað Húsavíkurkirkju talsverða fjárhæð sem kirkjan lánaði vegna byggingarinnar. Á hverju ári stendur fjárhagur kirkjugarðsins í járnum og ekki hefur tekist að lækka skuldina á þessum árum. Ég og Haukur fengum þá Smára Sigurðsson og Guðmund Sigurðsson í stjórn kirkjugarðasambans Íslands í heimsókn sl. sumar til að ræða stöðuna og hvort Kirkjugarðasambandið gæti veitt kirkjugarði okkar styrk til að lækka þessa skuld. Þeim þótti það ekki ólíklegt ef Húsavíkurkirkja afskrifaði einhvern hlut á móti. Ýmsar hugmyndir voru ræddar og töldu þeir farsælast fyrir garðinn og kirkjuna að hafa ekki sameiginlega stjórn yfir báðum stofnunum. Sóknarnefnd hefur rætt þessa hugmynd en enginn ákvörðun verið tekin í málinu.

Umfangsmiklum endurbótum á kirkjunni lauk að mestu á árinu. Aðeins er eftir lítilsháttar málningarvinna og yfirferð innandyra og á útihurð og verður það væntanlega klárað á þessu ári. Þessar framkvæmdir hófust árið 2002 og er heildarkostnaður við framkvæmdirnar nú orðin um 23.000.000 króna. Styrkir frá jöfnunarsjóði sókna og Húsafriðunarnefnd ríkisins til verksins fengust uppá krónur 13.550.000.

Þegar litið er yfir verkið í heild er ástæða til að vera ánægð með það.

Framkvæmdir hafa gengið vel og kostnaður verið innan áætlaðra marka sem og fjármögnunin. Ber að þakka þeim sem að komu, góðum og vandvirkum verktökum, kirkjuyfirvöldum og forráðamönnum Húsafriðunar.

Um mánaðarmótin nóvember/desember sagði Haukur Tryggvason, starfsmaður Húsavíkurkirkju og kirkjugarða Húsavíkur, starfi sínu lausu. Ég vil þakka honum störfin sl. ár og ég er enn ekki búin að sjá hver á að minna okkur í sóknarnefndinni á hvenær þarf að sækja um hinn og þennan styrkinn, skrifa hinum og þessum bréf ofl. ofl. En þetta er allt í kollinum á Hauki.

Ég vil að lokum þakka öllum sem að starfi kirkjunnar og kirkjugarðssins koma fyrir mikið og ánægjulegt samstarf og ég hlakka til samstarfsins áfram.

Sólveig Mikaelsdóttir. Formaður sóknarnefndar.

2. Skýrsla sóknarprests: sr. Sighvatur Karlsson.

Skýrsla sóknarprests

Flutt á Aðalfundi Húsavíkursóknar 28. mars 2007 í kirkjubæ.

Ágætu tilheyrendur

Ég færi öllu samstarfsfólki mínu þakkir fyrir giftudrjúgt samstarf á liðnu starfsári. Það er ómetanlegt fyrir mig að hafa samstarfsfólk sem er boðið og búið að leggja safnaðarstarfinu lið með margvíslegum hætti, svo sem með þátttöku í nefndarstörfum, kórstarfi safnaðarins, barna og æskulýðsstarfinu og helgihaldinu svo nokkuð sé nefnt.

Með samstilltu átaki er hægt að lyfta grettistaki í safnaðarstarfinu en aldrei megum við gleyma því að biðja Guð að blessa safnaðarstarfið í sinni fjölbreyttustu mynd svo að það megi vaxa og blómstra.

Þessi aðalfundur er að þessu sinni haldinn á stórafmælisári Húsavíkurkirkju sem fagnar 100 ára afmæli sínu 2. júní n.k. Við hlökkum öll til þeirrar hátíðar sem í hönd fer og biðjum Guð að blessa undirbúninginn ríkulega, Þakka vil ég þeim sem þegar hafa lagt hönd á plóg í þeim efnum. Með samstilltu átaki tekst okkur að efna til veglegrar afmælishátíðar af þessu tilefni. Afmælisnefnd hefur verið að störfum frá því á vormánuðum og dagskrá hátíðarinnar mun liggja fyrir um miðjan apríl. Kirkjukór Húsavíkur mun á afmælisári kirkjunnar fara vestur um haf í lok júlí og taka þátt í hátíð íslendingadagsins í Gimli í Kanada. Vænti ég þess að kórinn fái veglegan farareyri til ferðarinnar enda hefur kórinn sungið í kirkjunni á gleði og sorgarstundum sóknarnarna í meira en 60 ár.

Safnaðarstarfið hefur verið með hefðbundnum hætti s.l. starfsár. Guðþjónustur eða messur með kirkjukór Húsavíkur voru 23. Aðrar guðþjónustur eða helgistundir voru 27, þ.m.t. gospellmessur og helgistundir í Hvammi og á öldrunardeild. Fermingarbúðir voru að vanda að kirkjumiðstöðinni við Vestmannsvatn og hafa fest sig í sessi .Fyrirhugað er að næstu fermingarbúðir verði þar seinni partinn á ágúst áður en skólinn byrjar. Það finnst mér skynsamleg ráðstöfun. Foreldrum fermingarbarna næsta árs verður sent bréf þess efnis í vor. Ég er búinn að biðja skólayfirvöld að gera ráð fyrir fermingarfræðslunni í skóladagskrá 8. bekkjar næsta vetur því að þá erum við vonandi búin að taka Bjarnahúsið í notkun.

Mér telst til að ég hafi skírt 29 börn, þar af 9 í sérstakri athöfn í kirkjunni, 13 í heimahúsum og 7 við guðþjónustur. Ég fermdi 41 barn á s.l. starfsári þar af tvö með lögheimili utan sóknar. Ég annaðist 18 útfarir, þar af 15 í Húsavíkurkirkju og þrjár utan sóknar. Auk þess jarðsöng ég andvana fætt barn og eitt nýfætt. Afleysingaprestur annaðist nokkrar útfarir í fjarveru minni á árinu. Ég annaðist 8 hjónavígslur, þar af eina í heimahúsi, eina utan sóknar en sex hjónavígslur fóru fram í Húsavíkurkirkju undir minni stjórn. Þess má til gamans geta að það er búið að panta eina giftingu hjá mér 07.07.07. Ég get tekið við fleiri pöntunum þennan dag.

Sr. Sighvatur Karlsson.

3. Skýrsla um starf KFUM-K: Óskar Birgisson.

KFUM og KFUK Húsavík 2006.

KFUM og KFUK starfið hófst um miðjan janúar eftir jólafrí.

Unglingadeild var stofnuð haustið áður fyrir unglinga á aldrinum 13 – 16 ára. Í janúar var stofnuð ný deild fyrir 9 – 12 ára . Um 40 börn og unglingar hafa tekið þátt á síðasta ári í hvorri deild. 10 ungmenni hafa aðstoðað við starfið í vetur. Starfið fer fram í sal Borgarhólsskóla einu sinni í viku yfir vetrartímann. Unglingar úr unglingadeildinni hafa farið á landsmót KFUM og KFUK í Vatnaskógi. Einnig hafa verið farnar kynningar- og námskeiðsferðir til Akureyrar. Í nóvember var næturíþróttamót í íþróttahöllinni á Húsavík sem þótti takast mjög vel. Yngri deildin æfði og setti upp jólahelgileik. Halla Rún Tryggvadót
tir kennari við Borgarhólsskóla leikstýrði börnunum ásamt mér.

Helgileikurinn var sýndur í Húsavíkurkirkju á aðventunni. KFUM og KFUK fékk styrk úr lista – og menningarsjóði Norðurþings vegna helgileiksins. Einnig fékk félagið styrk úr æskulýðssjóði til þjálfunar á leiðtogum.

Fyrir hönd KFUM og KFUK Húsavík Óskar Birgisson.

4. Skýrsla safnaðarfulltrúa: Björn Gunnar Jónsson

Skýrsla safnaðarfulltrúa vegna Héraðsfundar Þingeyjarprófastdæmis.sem haldinn var á Vestmannsvatni 23. apríl 2006.

Fundurinn hófst með Guðþjónustu í Einarsstaðarkirkju í Reykjadal. Sr. Sighvatur fór á sínum bíl og við Sólveig fengum far með honum, þá fór Hafliði Jósteinsson, okkar fulltrúi í hjálparstarfi kirkjunnar.

Eftir Guðþjónustuna var farið á Vestmannsvatn og þar beið okkar hádegismatur.Þar gafst fulltrúum sóknanna tækifari til að ræða saman um kirkjustarfið, í sínum sóknum, í léttu spjalli.

Fundurinn hófst að loknum hádegisverði og dagskrá fundarins var lögð fram.

1. Reikningar héraðssjóðs.

2. Skýrsla kirkjuþingsfulltrúa.

3. Skýrsla kirkjumiðstöðvarinnar.

4. Skýrsla Hjálparstarfsins.

5. Skýrsla héraðsprests.

6. Skýrsla sókna.( Sólveig sagði frá starfi okkar).

7. Tölulegar upplýsingar um fjármál sókna.

8. Fróðleikur um heimsóknarþjónustu.

Það helsta er að sr. Pétur Þórarinsson prófastur er í veikinda fríi og sr. Jón Ármann hefur verið settur í embættið á meðan. Sr. Pétur situr fundinn með okkur.

Þá var gerð grein fyrir lélegu ástandi á efra húsinu á Vestmannsvatni sem er á undanþágu, þar sem herbergi eru of lítil og göt kominn í gólfið, og allt lélegt orðið.

Helst er talað um að byggja nýtt og tengja það við aðalhúsið.

Þá var það í fyrsta sinn að þeir sem gefa kost á sér sem kirkjuþingsfulltrúar héldu framboðsræðu og gerðu grein fyrir sér og sínum áhugamálum. Það er svo kosið seinna.

Hafliði gaf kost á sér og hélt þrumu góða ræðu. Það er búið að ákveða að leggja niður Raufarhafnar prestakall og verður það sameinað Skinnastaðar prestakalli. Þessu hefur verið mótmælt, en dugar ekki , rökin eru fólksfækkun.

Þess má geta að Sólveig var kosin annar fundarstjóri ( og þá fóru nú hlutirnir að gerast).

Þetta var ágætis fundur og við vorum kominn heim kl. 19:00 um kvöldið.

Björn Gunnar, safnaðarfulltrúi.

5. Skýrsla starfsmanns: Haukur Tryggvason.

Kirkjan:

Árið hófst á að hringja kirkjuklukkunum á miðnætti, og á nýársdag var flaggað að venju.

Síðan tók við undir búningur fyrir athafnir sem voru frammundan, messur, giftingar, skírnir, í mars var farið að huga að páskavöku fara yfir efni sem var til og útvega það sem vantaði, fægja muni kirkjunnar fyrir páskana og útvega oflátur, messuvín og kerti.

Seinni hluta í mars fóru að koma kórar til að syngja í kirkjunni, einnig voru kórar kirkjunnar með sína tónleika og var sífellt verið að taka niður söngpallana eða setja upp, en pallarnir eru sér smíðaðir fyrir kirkjuna, því passa ekki aðrir pallar þarna, ekki er heppileg geymsla í kirkjunni fyrir þá þess vegna hef ég farið með þá í kirkjubæ og geymt þá þar. Bæklingar um kirkjuna kláruðust og var farið að reyna að fá þá prentaða, en diskurinn með uppsetningunni fannst ekki strax og dróst því að þeir kæmu fram í ágúst, en það voru ekki til bæklingar um tíma í kirkjunni, sex þúsund bæklingar voru prentaðir og kostnaður við það 70.000 og er eftir að bæta virðisaukaskattinum við.

Þá lét ég gera póstkort af kirkjunni og komu þau fjórða ágúst, þau voru höfð á borði í kirkjunni og seldust 319 kort í ágúst, fyrir 20.230-, einnig voru þau höfð til sölu í bókabúðinni. Síðustu dagana í ágúst hætti starfsmaðurinn í kirkjunni og fór ég og gerði hreint þar þessa daga skúraði upp í turni byrjaði á klukkulofti og niður, þvoði úr gluggum og þurrkaði af bitum, á meðan hafði ég kirkjuna opna,.

Gestir voru um 16.000 í sumar. Málarar komu til að mála inni í kirkjunni, áttu þeir að mála alla glugga, veggina í kórnum, bitann undir altaristöflunni, skápinn undir sálmabækurnar, forstofuna upp að geymslulofti, einnig að taka lágu veggina á svölunum, og kirkjuhurðina, einnig bað ég að yrði lagaðir blettir utan á kirkjunni við aðaldyrnar, verkaðir grænir blettir og klárað að mála bakdyrnar. Ekki hafa þeir enn klárað þetta.

Þá hafði ég samband við píparana og bað þá að klára að setja ofnana upp, en eftir er að setja nýju ofnana í kórinn, skrúðhúsið, bakforstofuna, stigapallinn uppi baka til, og geymsluherbergið.

Þá er eftir að setja nýtt filtteppi á söngloft og forstofu, orgelið var stillt af Björgvini Tómassyni í október, skipt var um perur í ljósakrónunni í desember og hjálpaði Björn Gunnar mér við það,vinna við undirbúning athafna jól og áramót, setja upp jólatrén, aðventukransinn og fleira og svo hringja á miðnætti um áramótin og flagga, var að panta hljóðkerfi og átti það að koma í febrúar.

Garðurinn.

Annan janúar hreinsaði ég dósir og annað rusl úr garðinum, þriðja janúar voru runnarnir klipptir og fékk ég mann með mér til að hreinsa það upp, ég fékk kirkjubækurnar hjá séra Sighvati lánaðar og fór yfir legstaðaskrárnar og bætti við útfarardögum og setti inn fæðingar og dánardaga þar sem það vantaði, jarðarfarir voru 19 á árinu, keyrt var í Einarsstaði, Þorgeirskirkju og séð um akstur úr kirkju í garð, til Raufarhafnar, auk þess að sækja kistur á Akureyri. Þá var sett kefli í líkbílinn og var það mikil bót því það þurfti að fá fleiri til að koma kistu í bílinn á Akureyri en tvo nú, er það ekkert mál fyrir tvo, einnig er hægt að setja band yfir kistuna í lengri ferðum, upp á öryggi bílstjórans ef eitthvað hendir, árekstur eða útafakstur.

Sumarstarfsmenn voru fjórir og byrjaði sá fyrsti viku af maí, hinir viku af júní og voru þeir 627 tíma við slátt, hreinsa beð og stíga 915 tíma, laga leiði 128, og við annað 88 tímar, eða alls 1728 tíma, vinna þeirra var mjög góð og leit garðurinn vel út að sögn þeirra sem koma í garðinn, en ég hefði viljað gera betur og setja möl í stígana en þeir áttu ekki neina möl hjá bænum sem hentaði í það.

Haukur þakkar fyrir sig og fundarmenn þakka honum og það er klappað fyrir Hauki.

Og það held ég nú, eins og ritstjórinn segir