Söngvarinn Friðrik Ómar heimsækir Húsavík í tónleikaferð sinni um landið þann 22. Október nk. Friðrik þarf vart að kynna fyrir Húsvíkingum en þessi 27 ára gamli söngvari hefur skipað sér í röð fremstu söngvara landsins.
Þetta er í fyrsta sinn sem Friðrik fer eins síns liðs um landið en hann hefur áður sungið með Guðrúnu Gunnarsdóttur og fylgt eftir þrem gullplötum þeirra sl. ár með því að syngja í kirkjum landsins. Að þessu sinni er það Grétar Örvarsson sem leikur undir á píanó og á efnisskránni eru meðal annars lög sem Vilhjálmur Vilhjálmsson gerði vinsæl og fleiri þekkt dægurlög sem Friðrik hefur gaman af að flytja
,,Þetta er í fyrsta sinn sem ég held tónleika á Húsavík svo þetta er mjög sérstakt fyrir mig. Ég hef alltaf heillast af Húsavík og oft komið þangað. Kirkjan er, fyrir mér, táknmynd bæjarins, tignarleg og gullfalleg. Fólkið sjálft er náttúrulega líka fjallmyndarlegt þarna þannig að maður kemur ekki að tómum kofanum hvað fegurð varðar. Ég get lofað afar hugljúfum tónleikum. Áhorfendur gleyma stund og stað og af fyrri tónleikum okkar að dæma fer fólk mun yfirvegaðra og bjartsýnna út um kirkjudyrnar en þegar það kom inn. Það er líka gott að koma inn í kirkjuna og hlýða á tónlist. Maður nær vissri slökun sem er hverjum manni holl. Svo er aldrei að vita nema að ég syngi eitthvað af eurovision slögurum og þá færist smá fjör í leikinn!” segir Friðrik Ómar og hlær.
Miðvikudagskvöldið 22. október Húsavíkurkirkja
Tónleikarnir hefjast kl. 20:30 og eru miðar aðeins seldir við innganginn. Miðaverð aðeins 1500.-