Framkvæmdir við sameiginlega lóð Húsavíkurkirkju og Bjarnahús eru komnar vel af stað.
Mánudaginn 27. mars sl. hófst vinna við uppgröft og jarðvegsskipti á sameiginlegri lóð Húsavíkurkirkju og Bjarnahúss.
Verkið hefur gengið mjög vel og er Benedikt Björnsson, skrúðgarðyrkjumeistari, faglegur stjórnandi þess. Verktakafyrirtækið Hóll ehf (Þórður Sigurðsson) sér um jarðvegsskiptin.
Haldnir eru vikulegir verkfundir undir stjórn og umsjón Egils Olgeirssonar en hann og Frímann Sveinsson halda utan um verkáætlun fh sóknarnefndar, fylgjast með og eru í stöðugu sambandi við þá sem að verkinu koma.
Í dag (17. apríl) er verkið í góðum stíganda og komið að uppsetningu fyrstu forsteyptu eininganna sem gerðar voru í vetur hjá Trésmiðjunni Rein ehf.
Öll samvinna við hönnuð (Landslag), skrúðgarðyrkjumeistara (Benedikt Björnsson), pípulagningameistara (Hallgrím Sigurðsson), rafvirkjameistarar (EG Jónasson), Hól ehf (Þórður Sigurðsson), Trésmiðjuna Rein (Sigmar Stefánsson) og Val ehf (Kristján Ben Eggertsson) sem og alla þá sem að þessu verki koma, hafa verið til mikillar fyrirmyndar. Samstarf við embættismenn Norðurþings og kirkjunnar fólk hefur einnig verið til fyrirmyndar.
Meðfylgjandi myndir gefa góða sýn á stöðu framkvæmdanna.
Fjárhagsáætlun verksins, kr. 42.000.000,- er á áætlun og vel er haldið utan um kostnaðarliði.
Áætlað er að verkinu verði lokið í júní/júlí 2023, bjartasta vonin er að lóðin skarti sínu fegursta á Þjóðhátíðardegi okkar Íslendinga, 17. júní nk.
Að gefnu tilefni:
Sóknarnefnd hafa borist vinsamleg tilmæli vegna framkvæmdanna og þeim tilkynnt að verkið væri útboðsskylt, en í tölvupósti sem barst segir m.a.: “… því er Þjóðkirkjan aðili að Ríkiskaupum og aðila að Rammasamningum Ríkiskaupa og hefur ekki sagt sig frá RG-09 sem er rammasamningur um skrúðgarðyrkju…”.
Sóknarnefnd leitaði álits lögfræðings sem hefur skoðað málið og telur ljóst að Húsavíkursókn sé ekki aðili að rammasamningnum, enda ekki tilgreind á lista yfir slíka aðila. Fyrir áhugasama má sjá listann hér: http://gatt.rikiskaup.is/yfirlit.aspx .
Það liggur því fyrir álit þess efnis að verkið falli ekki undir ofangreindan rammasamning Ríkiskaupa, auk þess sem kostnaður þess er undir viðmiðunarfjárhæð um útboðsskyldu, sem er í dag kr. 58.543.000,-.
Og aftur að gefnu tilefni:
Nokkur umræða hefur skapast frá því að lóðaframkvæmdir hófust, hvort ekki þyrfti að fara fram grenndarkynning á verkinu. Því skal svarað að auglýstur var opinn kynningarfundur sl. haust um fyrirhugaðar framkvæmdir. Að auki voru teikningar birtar opinberlega á frétta- og samfélagsmiðlum. Taldi sóknarnefnd að þetta uppfyllti skyldur hvað grenndarkynningu varðaði og fékk nefndin engar athugasemdir, hvorki frá nágrönnum eða yfirvöldum.
Nokkrir atriði varðandi Bjarnahús, safnaðarheimili Húsavíkurkirkju:
Ákveðið var að kaupa glugga frá Danmörku í húsið og var það gert með samþykki Minjastofnunar. Stefnt er að því að hefja gluggaskiptin um eða upp úr miðjum maí 2023.
Meðfram jarðvegsskiptunum var ákveðið að grafa meðfram Bjarnahúsi og drena. Einnig var ákveðið að gera nýja flóttaleið úr húsinu sem verður niðurganga og útgöngudyr úr kjallara, að norðan. Eldri flóttaleiða/brunastigi hefur verið fjarlægður með leyfir yfirvalda.
Fyrr í vetur fékk sóknarnefnd verkfræðistofunna Eflu til að skoða Bjarnahúsið og taka sýni með tilliti til myglumyndunar en lengi hefur verið grunur um að mygla væri í kjallara hússins. Við skoðun lýstu skoðunarmenn ánægju sinni með ástand hússins en tóku sýni úr kjallaranum. Sýni voru tekin í vestur vegg (þar sem gangstétt bæjarins, með snjóbræðslu, liggur þett við grunninn). Einnig voru sýni tekin í suðaustur horni kjallarans sem er timburklædd geymsla sem Kvenfélag Húsavíkur nýtir. Myglusveppur greindist í þessari geymslu og þegar timbrið var rifið og grafið frá sást að greið leið var fyrir raka, rennandi blaut mold lá upp að grunnhleðslunni. Svæðið verður nú þurrkað og þvegið, drenað og dúkur lagður að og ætti myglan þá að heyra sögunni til. Engin mygla greindist í vesturveggnum og gott að ekki þarf að hrófla við gangstéttinni meðfram húsinu.
Það er verið að ganga frá lausum endum hvað varðar alla umsýslu um byggingaleyfi fyrir nýjan inngang og aðgengi, fyrir alla, að Bjarnahúsi. Góðar vonir standa til þess að framkvæmdir við nýbyggingu og endurbætur Bjarnahúss haldi síðan áfram vorið 2024.
Sóknarnefnd fékk heimsókn í febrúar sl. Þar voru á ferð frændsystkinin Bjarni, Ásdís Rósa og Þórdís en foreldrar þeirra ólust upp í Bjarnahúsi. Erindi þeirra var að kynna sóknarnefnd gjöf til safnaðarheimilisins en það er koparskjöldur með nokkrum orðum um sögu hússins. Verkið er unnið í samvinnu við Minjastofnun. Stefna afkomendur úr Bjarnahúsi að því að afhenda skjöldinn í júní nk og hefur honum verið fundinn staður á suðurenda vesturhliðar. Koparskjöldurinn verður settur upp þegar framkvæmdum á vesturhliðinni verður lokið.
Rétt er að geta þess að stuðningur hollavina Húsavíkurkirkju og Bjarnahúss hefur skipt verulegu máli varðandi fjármögnun þessa stóra verkefnis og það ber að þakka. Sóknarnefnd er einnig með allar klær úti til að afla fjárstuðnings og styrkja s.s. frá opinberum stofnunum en verkefnið allt er auðvitað mjög dýrt enda húsin rúmlega aldargömul og friðuð. Allar framkvæmdir við kirkjuna, safnaðarheimilið og lóðina eru gerðar í fullu samráði og með samþykki Minjastofnunar. ( þessi frétt er birt fyrst á facebook-síðu Hollvinasamtaka Húsavíkurkirkju)


