Frábærir aðventutónleikar Kirkjukórs Húsavíkur

Deildu þessu:

Það mátti sjá tár á hvörmum kirkjugesta er sóttu aðventutónleika Kirkjukórs Húsavíkur á sunnudagskvöld. Það voru barnaraddirnar sem kölluðu þessi áhrif fram en börn úr Borgarhólsskóla sungu nokkur lög með kirkjukórnum. Kirkjuorganistinn Judit György stjórnaði kórunum og lék með á trommu í einu laginu. Aladár lék undir af stakri snilld sem fyrr.

Adrianne Davis og Lisa McMaster léku á hljóðfæri af listfengi. Kirkjukórinn flutti jólalög sem hann kunni vel. Ég tók eftir því að kórinn söng eitt verk sem hann hafði ekki sungið áður á aðventutónleikum. Um var að ræða áhrifamikið og rismikið lag sem kórinn fór afar vel með í flutningi sínum. Um 40 kórfélagar sungu að þessu sinni með kórnum en ég man ekki til þess að kórfélagar hafi verið svo margir fyrr á aðventutónleikum í minni tíð. Ég hafði ekki tölu á börnunum en þau auðguðu tónleikana með sínum fallega söng. Bestu þakkir í aðdraganda helgrar hátíðar frelsarans.