Við höfum sannarlega ástæðu til þess að fagna og vera glöð að afloknum hátíðarhöldum í tilefni aldarafmælis Húsavíkurkirkju. Stórbrotnir listamenn, styrkþegar Friðrikssjóðs lögðu sitt á vogarskálina til að gera hátíðina ógleymanlega þeim sem hana sóttu með frábærum tónlistarflutningi sínum og skemmtilegu viðmóti. Friðrikssjóður hefur svo sannarlega sannað gildi sitt. Það var haft á orði hversu skýrmæltir fyrrum þjónandi prestar voru er þeir lásu ritningarlestrana í afmælismessunni og að ungir prestar gætu mikið af þeim lært. Kórar kirkjunnar vöktu athygli fyrir fallegan söng, Sigurjón Jóhannesson fyrir mjög áhugavert erindi um sögu kirkjunnar. Kirkjusögusýningin í Safnahúsinu kitlar skynfærin, myndirnar og textarnir vekja forvitni lesandans. Gamla skírnarskálin með rendum tréfæti úr gömlu kirkjunni vekur athygli, áletraða spjaldið sem var þar yfir kórdyrum einnig. Vert er að vekja athygli á því að sýningin stendur yfir í Safnahúsinu til 17. júní. Hátíðarkvöldverðurinn var ógleymanlegur þeim boðsgestum sem hann sóttu. Kirkjunni voru gefnar margar góðar gjafir sem síðar verður greint frá en sóknarprestur gerði grein fyrir þeim og bað góðan Guð að blessa glaða gefendur.Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson flutti ávarp í kvöldverðarboðinu þar sem hann fyrir hönd íslensku þjóðarinnar þakkaði húsvíkingum fyrir að hafa gætt þjóðardýrgripsins, Húsavíkurkirkju í heila öld. Það kom mér skemmtilega á óvart í messu sjómannadagsins að sjá þar kunnugleg andlit frá Þýskalandi. Þar sátu á kirkjubekk þýsku hjónin sem ég gaf saman í hjónaband í fyrrasumar og viðtal var tekið við sem birtist í Skarpi. Ég gaf mig á tal við þau. Í ljós kom að þau komu gagngert til Húsavíkur frá Þýskalandi til þess að taka þátt í hátíðarhöldunum! Og þau áttu ekki orð yfir menningarlegri og trúarlegri reisn þessarar afmælishátíðar!