Deildu þessu:

Íbúðarhús úr timbri, tvær hæðir og kjallari. Byggingarár talið 1907. Arkitekt: Rögnvaldur Ólafsson.

Lóðarsamningur var gerður við prestinn 1906. Þetta var hluti af verslu- narlóð Örum og Wullffs og látinn með samþykki verslunarinnar. Lóðin var leigð Bjarna Benediktssyni sem verslunarlóð og lá beggja megin aðalgötunnar sem nú nefnist Garðarsbraut. Í samningi var áskilin 20 álna breidd fyrir veginn. Fylgdi vestari hluta lóðarinnar brekkan niður að rótum sjávarbakkans. Á vestari hlutanum var Garðarsbraut 12 reist.

Byggjendur nr. 11 teljast hjónin Þórdís Ásgeirsdóttir og Bjarni Benediktsson kaupmaður. Hins vegar munu faðir Bjarna og stjúpmóðir, hjónin Ásta Þórarinsdóttir og Benedikt Kristjánsson, prófastur á Grenjaðarstað, hafa eitthvert fé lagt fram til byggingarinnar. Hann var að hætta prestskap og voru þau skráð til heimilis í húsinu strax 1907. Séra Benedikt annaðist póstþjónustu um skeið á Húsavík, en hún fór fram í Garðarsbraut 12.

Húsið nr. 11 var kallað Bjarnahús fyrst, Grenjaðarstaður 1908-1909, Prófastshús 1910-1917, Bjarnahús eftir 1918. Þórdís og Bjarni ráku þar alllengi rómað sumargistihús sem þau nefndu ,,Hótel Ásbyrgi”. Var það í nr. 11, þótt þau hefðu einnig gistiherbergi í nr. 12.

Hjónin Sólveig Þorsteinsdóttir og Einar M. Jóhannesson síldarverksmiðjustjóri keyptu húsið 1960 og fluttu þangað.

Hjónin Sólveig Þrándardóttir og Jón Þorgrímsson keyptu húsið 1972 sem þá var farið að láta á sjá. Gerðu þau húsið upp með aðstoð trésmiðjunnar Borgar. Þeim hjónum var kunn saga hússins og ákvað að sýna því þann sóma sem því bar. Jón var bifvélavirki, rak um árabil rómað bifreiðaverkstæði á Húsavík. Hann var þúsundþjalasmiður. Hann ákvað að endurnýja skrautlista þá sem minna á skrautlistana á Húsavíkurkirkju, bjó til viðeigandi tönn sjálfur sem hvergi fékkst. Vel tókst til með það, einnig gluggafögin sem fengu á sig nánast upprunalega mynd.Fjölskyldunni leið vel í Bjarnahúsi. Frændfólkið ungahlakkaði til að koma í ,,veisluhúsið” eins og þau nefndu það.

Húsið fór úr þeirra eigu 1991 þegar hjónin Þórdís Vilhjálmsdóttir og Örn Björnsson keyptu það.

Húsavíkurbær rak þar síðan leikskóla um tíu ára skeið frá 1995 til 2005. Húsavíkurkirkja keypti Bjarnahús af  Húsavíkurbæ  við undirritun kaupsamnings 8. nóvember 2005. Samþykkt á safnaðarfundi 20. nóvember s.á.. Samþykkt kirkjuráðs lá fyrir 17. janúar 2006.

Bjarnahúsið var afhent 9. desember 2007 á aðventutónleikum Kirkjukórs Húsavíkur og loks helgað af Hólabiskupi sr. Jóni Aðalsteini Baldvinssyni sem Safnaðarheimili Húsavíkurkirkju eftir gagngerar endurbætur innan dyra sem Trésmiðjan Rein annaðist ásamt undirverktökum á 1. sunnudegi í aðventu, 29. nóvember 2009.

Yfirumsjón með verkinu hafði Verkfræðistofan Mannvit á Húsavík. Egill Olgeirsson var þar fremstur í flokki sem reynst hefur kirkjunni einstaklega vel í gegnum árin. Það er bæn mín að Bjarnahús megi reynast griðastaður í lífi sóknarbarna á gleði og sorgarstundum um ókomna framtíð.

Sr. Sighvatur Karlsson, sóknarprestur tók saman, byggt að hluta á Sögu Húsavíkur, 1. bindi, bls. 135-136