Barnastarfið komið í jólafrí

Deildu þessu:

Nú er barnastarfið komið í jólafrí, sunnudagaskóli, NTT og fermingarfræðslan reyndar einnig.

Við höfum virkilega notið samverunnar á aðventunni, í sunnudagaskólanum voru bakaðar smákökur og við ræddum um gleðina yfir því að fá pakka á jólum og ekki síður gleðina sem fylgir því að gefa öðrum gjafir. En stærsta gjöfin er Jesú, vinur okkar sem er alltaf með okkur. Við vorum sammála um að vináttan er dýrmæt og við getum öll fært hvert öðru gleði og von með því að vera góðir vinir, hjálpfús, tillitssöm, sýna öðrum virðingu og hlýju. NTT krakkarnir  ( 9-12 ára) fóru í Me me mumu ratleik á aðventu og síðan var líka föndurdagur, þar sem börnin ýmist skreyttu piparkökur, bjuggu til músastiga eða skreyttu jólakrukkur.

Sameiginleg aðventustund sunnudagaskólans og NTT var 5.desember, hún hófst í kirkjunni þar sem við hlustuðum á jólafrásögnina af fæðingu frelsarans, Konni og Rebbi refur litu inn í smá stund og sungnir voru sálmar og sunnudagaskólalög og að sjálfsögðu tendruðum við ljós á aðventukransinum. Að þessu loknu var farið í Bjarnahús, þar sem búið var að skreyta jólatréð og við það sungum við öll gömlu góðu lögin sem gjarnan eru sungin á jólatrésskemmtunum. Hæst bar kannski að Kertasníkir og Kjötkrókur duttu inn í hús og sungu, dönsuðu og sprelluðu. Áður en þeir héldu aftur upp í fjall, gáfu þeir krökkunum góðgæti.

Við í Húsavíkurkirkju, þökkum börnunum fyrir einstaklega ánægjulegar samverustundir og eins foreldrum og óskum öllum gleðilegra jóla.