Barnastarf kirkjunnar hefst n.k. sunnudag kl. 11 í kirkjunni. Sóknarprestur hefur umsjón með því ásamt Adrianne Davis tónlistarkennara. Unglingar og væntanleg fermingarbörn aðstoða.Auk þess að syngja mikið þá fá börnin að heyra Biblíusögu á hverjum sunnudegi, síðan læra þau setningu dagsins og að lokum er lesin sagan um Danna og Birtu en þau eru aðalsöguhetjur Kirkjubókarinnar sem börnin fá gefins. Kirkjubókinni fylgir poki og fallegir límmiðar sem börnin geta safnað í hana.
Stefnt verður að því að kenna börnunum ný barnalög eftir Hafdísi Huld Þrastardóttur og fleiri. Yfirskrift starfsárs kirkjunnar er Samstarf. Hvatt er til samstarfs hópa og einstaklinga, félaga og stofnana í þjóðfélaginu. Leikritum vetrarins er ætlað að stuðla að þessu. Aðal söguhetjurnar eru Engilráð andarungi og Rebbi refur. Foreldrar eru eindregið hvattir til þess að fjölmenna með börnum sínum og vera dugleg að drífa börnin í skólann á hverjum sunnudagsmorgni kl. 11.