Úr dagbók sóknarprests
,, Bjartsýni er skylda“
Á gamlársdag 2019, var aftansöngur í Húsavíkurkirkju þar sem Ásgeir Böðvarsson var ræðumaður og flutti kirkjugestum ákaflega vönduð, vekjandi og innihaldrík orð. Lokaorð hans voru þessi : ,, Ég vann nokkuð lengi með Friðfinni heitnum Hermannsyni sem var annálaður bjartsýnismaður og lifði samkvæmt mottóinu; „Bjartsýni er skylda“ Í fyrstu fannst mér þetta vera nokkuð glannaleg og óraunsæ yfirlýsing en með árunum hef ég hallast æ meir að því að hér sé raunar um sanna lífsspeki að ræða. Okkur skortir bjartsýni – það er engu að tapa með bjartsýni – og það gerist varla nokkuð af viti án bjartsýni!!“
Sóknarprestur ákvað að taka þessi góðu orð: ,,Bjartsýni er skylda“ til sín og hafa þau reynst raunagóð á þessu sérstaklega krefjandi ári sem senn er að líða.
Árið byrjaði ósköp venjulega, hefðbundið kirkjustarf hófst upp úr miðjum janúar með fermingarfræðslu, sunnudagaskóla, helgistundum og messum og auðvitað sálgæsluviðtölum.
Fjölskyldumessa var í lok janúar og boðið upp á súpu og brauð á eftir. Í febrúar var kvöldmessa undir yfirskriftinni ,,Ljós og myrkur“ og að undirbúningi hennar komu nokkrir af notendum Miðjunnar, en þau bjuggu til ljósmyndasýningu undir sama þema og myndirnar voru sýndar í messunni.
Á konudaginn var fjölmenn messa, Aðalbjörg Sigurðardóttir formaður Kvenfélags Húsavíkur flutti hugvekju og söngsysturnar Bylgja, Guðný, Svava og Harpa Steingrímsdætur fluttu tvö lög auk þess sem kirkjukórinn söng.
Í byrjun mars, ,,korteri fyrir samkomubann“ lauk NTT námskeiði( barnastarf fyrir 9-12 ára) með kvöldvöku og gistingu í Bjarnahúsi laugardaginn 7. mars og undirbúningi fyrir æskulýðsmessu daginn eftir. Anna Birna Þórðardóttir og Stefán Bogi Aðalsteinsson, höfðu umsjón með NTT starfinu. Mikil ánægja var með messuna sem var fjölsótt.
Sama dag, fékk sóknarprestur að fara upp í Hvamm ásamt Ilonu organista og reyndist það vera síðasta helgistundin í bili. Næsta helgistund á Hvammi fór fram 7.júní, þremur mánuðum síðar. Heimsfaraldurinn Covid 19 setti hefðbundnu helgihaldi og kirkjustarfi töluverðar skorður. Sunnudagaskólinn fór snemma í frí, en það tókst að ljúka fermingarfræðslu með hefðbundnum hætti. Fermingar frestuðust og í stað þriggja dreifðist hópurinn niður á fimm athafnir, en fjórar athafnir voru í lok ágúst.
Í stað hins venjulega kirkjustarfs, reyndi sóknarprestur að halda úti starfi og vera í samskiptum við söfnuðinn með hjálp internetsins og birta efni á fésbókarsíðu kirkjunnar. Má þar nefna morgunbænir, einfaldar helgistundir frá Skírdegi og Páskadegi. Á föstudaginn langa var leyfilegt að hafa opna kirkju en með takmörkuðum fjölda hverju sinni, en auk þess var streymt frá viðburðinum. Lesarar voru allmargir, bæði vanir en líka ný andlit, þeir voru:
Sólveig Halla, Stefán Bjarni, Guðmundur Vilhjálmsson, Helga Kristinsd., Guðrún Ingimundard., Sigurgeir Aðalgeirsson, Eiður Árnason, Emilía Harðard. Svavar Pálsson, Kristján Þór Magnússon, Hjálmar Bogi Hafliðason, Þórgunnur Reykjalín, Óli Halldórsson, Röðull Reyr Kárason.
Húsavíkursókn færir þeim hér með bestu þakkir fyrir þeirra framlag þennan dag. Ilona Laido lék á orgel á milli lestra, en því miður naut tónlistin sín ekki í streymi, þar sem tæknin var okkur ekki hliðholl, en í ljós kom að heppilegra hefði verið að streyma úr síma frekar en tölvu eins og gert var þarna. Gott dæmi um þann lærdóm sem við kemur tækninotkun í kirkjustarfi sem starfsfólkið hefur verið að tileinka sér jafnóðum á þessu ári.
Snemma vors var boðið upp á að streyma frá útförum frá Húsavíkurkirkju og gekk það vel að mestu leyti. Aðstandendur útveguðu sjálfir síma til að streyma í gegnum á fésbókarsíðu kirkjunnar, en í haust fjárfesti kirkjan síðan í eigin myndavél og streymisbúnaði, til að auka þjónustu og minnka álag á aðstandendum á erfiðum aðstæðum.
Í vor, þann 1.maí, var opin kirkja í klukkustund og streymi. Stundin hófst með því að Internationalinn var leikinn, þeir Steingrímur Hallgrímsson og Guðni Bragason léku á trompet og Ilona spilaði á orgelið. Virkilega ánægjuleg stund og þakkir til Steina og Guðna og Ilonu.
Á mánudögum á vordögum var kirkjuklukkum hringt í hádeginu til að sýna samtöðu með heilbrigðisstarfsfólki og hvetja fólk til fyrirbæna þeim til handa og öllum sem glímdu við veikindi, einkum sökum Covid 19 og streymt var frá slíkri stund.
Þann 31.maí lauk afleysingu sr. Sólveigar Höllu. Ljóst var að sr. Sighvatur hygðist ekki koma aftur til starfa að loknu leyfi sínu og staða sóknarprests var auglýst. Umsóknarfrestur rann út í júlí og bárust 3 umsóknir. https://kirkjan.is/frettir/frett/2020/07/07/Tvaer-sottu-um-Husavik/. Sólveig Halla hélt áfram að leysa af.
Á sjómannadaginn var Sjómannasamvera í kirkjunni þar sem fluttar voru 3 frásagnir sjómanna, sr. Sólveig vísaði í frásögn Höskuldar Jónssonar og las bernskuminningu Birgis Þórs Þórðasonar en Guðmundur Vilhjálmsson var ræðurmaður. Kirkjukórinn söng nokkur lög og lagður var að lokum blómsveigur að minnisvarða um látna sjómenn, sunnan við kirkjuna. Hátíðleg og ánægjuleg stund þar sem fólk fjölmennti til kirkjunnar en hálftímar áður en stundin hófst léku á harmonikur þau Katrín Sigurðardóttir og Rúnar Hannesson, sem var virkilega skemmtilegt og þakkarvert.
Þann 17.júní var svo hátíðarmessa þar sem ræðumaðurinn Hjálmar Bogi Hafliðason flutti góða ræðu um sögu Húsavíkur, en kaupstaðurinn fagnaði 70 ára afmæli í ár. Að lokinni messu var boðið upp á grillaðar pyslur í blíðskaparveðri. Í júlí var leyfilegt að hafa helgistund í Hvammi þar sem Guðrún Torfadóttir og Sigríður Hörn Lárusdóttir leiddu sönginn og lauk samverunni með stuttri sönglagasyrpu.
Í ágúst var ráðinn nýr organisti, Jaan Alavere. Hann lék við útfarir og fermingar í ágúst og sjá mátti ný andlit á kóræfingum og drög voru lögð að kirkjustarfi vetrarins. En þar sem ekki var enn búið að ráða í starf sóknarprests mánaðarmótin ágúst/september var farið varlega í að setja upp endanlega dagskrá. Sú harmafregn barst okkur síðan að morgni 3.september að Jaan væri látinn,. Andlát Jaans var öllum mikill harmur og við minnumst hans með djúpu þakklæti og miklum söknuði.
Þann 11.september kom í ljós að sr. Sólveig Halla var ráðin í starf sóknarprests við Húsavíkurkirkju.
Barnastarf og fermingarstarf haustannar hófst í október og fór sunndagaskólinn fram í kirkjunni til að fara að sóttvarnarreglum. Hann var vel sóttur, milli 40-50 manns og ákaflega sárt þegar reglur voru hertar og ekki leyfilegt að halda úti barnastarfi né fermingarstarfi í bili. Foreldrar fermingarbarna fengu send heimaverkefni handa börnunm í tvær vikur þar til hægt var að bjóða upp á fermingarstarf að nýju.
Engar messur hafa verið á haustönn, en sóknarprestur hefur sett á fésbók kirkjunnar stutt myndbönd, bænir eða annað stutt efni.
Í tilefni af Allra heilagaramessu var tekin upp helgistund í kirkjunni, með þáttöku Svövu og Bylgju Steingrímsdætra og Unnsteins og Hjálmars Boga og sá Unnsteinn um myndvinnsluna. Þá sá prófastsdæmið um upptöku á aðventu þar sem Hjálmar Bogi, Unnsteinn og Bylgja sungu jólalög, en prestarnir Sólveig Halla og Jón Ármann lásu jólakvæði og leiddu bænastund.
Í nóvember og desember voru gerðar fjórar myndbandsupptökur með Frímanni Sveinssyni of sr. Sólveigu; helgistundir og sunnudagaskóli auk þess sem hann var í beinu streymi á 3 sunnudegi í aðventu. Þar flutti Frímann jólalög en þau Þórgunnur Reykjalín , Stefán Bjarni, Röðull Reyr og Aðalbjörg Sigurðar lásu jólakvæði inn á milli. Því miður tókst það streymi ekki sem skyldi, þar sem ný uppfærsla á streymisbúnaðinum var gölluð en hefur nú verið bætt úr því.
Ánægjulegt var að sóknarprestur fékk að koma inn á Hvamm til að hafa þar helgistundir, tvisvar sinnum yfir aðventuna, en helgihald þar hefur verið afar takmarkað á þessu ári, en hver stund er dýrmæt og gott að koma saman. Á Jóladag voru jólahelgistundir bæði á Skógarbrekku og Hvammi.
Það var vissulega erfitt að horfast í augu við það í desember að ekki yrði mögulegt að bjóða upp á helgihald yfir jólahátiðina. Gripið var til þess að taka upp aftansöng á Aðfangadagskvöld með þátttöku 8 kórmeðlima og Judit György var svo dásamleg að koma okkur til aðstoðar. Upptökur voru í höndum Unnsteins Júlíussonar, Hjálmars Boga og Guðbergs meðhjálpar auk Péturs Helga sem var þeim til aðstoðar. Að auki var gerð áramótakveðja, tekin upp á myndband, þar sem Kirkjukórinn við undirleik Juditar, Heilsutríóið og Ásta Soffía Þorgeirsdóttir fluttu áramótalög og góðar kveðjur bárust frá Heilbrigðisstofnun Norðurlands Húsavík, frá Lögreglustjóra Norðurlands og Sveitarstjóra Norðurþings. Tæknimál voru áfram í höndum strákanna og gerð myndbandsins sá Unnsteinn Júlíusson algerlega um og erum við óendanlega lánssöm að njóta hæfileika og starfskrafta hans.
Þess má geta að í desember var ráðinn nýr organisti, sem kemur til starfa í byrjun nýs árs.
Þar að auki vil ég nefna að Margrét Þórhallsdóttir, Magga Tolla, lét af störfum sem útfarastjóri í upphafi árs, en hún var mjög farsæl og sárt saknað úr því starfi. Magga var þó settum sóknarpresti til halds og trausts til að byrja með en Sólveig Halla tók að sér tímbundið að ganga í störf Möggu, fyrir utan að Steini Hall og Stefán Bjarni Sigtryggsson sáum um akstur líkbílsins. Það var töluvert álag fyrir sóknarprest að taka þetta að sér að auki og því mikill ánægja þegar Guðný Steingrímsdóttir hóf rekstur útfararþjónustu undir heitinu Ásjá og hefur hún átt gott samstarf við sr. Sólveigu og sóknarnefnd Húsavíkurkirkju, við fögnum henni mjög.
Öllu þessu góða fólki og fleirum sem hér hefur ekki tekist að nefna, eru færðar bestu þakkir. Það er ljóst að kirkjustarf getur verið með ýmsum hætti, það höfum við lært. En kirkjustarf getur aldrei verið lifandi nema með þátttöku safnaðarins. Það hefur verið ólýsanlega dýrmætt að finna velvilja, jákvæðni, samstöðu og áhuga sem fram hefur komið til að færa söfnuðinum fagnaðarerindið, von og hvatningu og hughreystingu og stuðla að samlíðan og samkennd í þessum sérstöku aðstæðum. Við í Húsavíkurkirkju, erum bjartsýn á nýtt ár. Það að nú sé komið bóluefni í lok árs, var samkvæmt okkar björtustu vonum, og jafnvel aðeins framar þeim. En hefur ekki öll heimsbyggðin legið á bæn ? Við höldum áfram að biðja fyrir hvert öðru, hvetja og minna hvert annað á að fara varlega og sýna elsku og tillitssemi með því að fara eftir fyrirmælum um sóttvarnir. Síðan munum við fagna og knúsast og gleðjast og halda áfram að skapa skemmtilegar og uppbyggilegar samverur í trú, von og kærleika, ekki bara í gegnum netið, heldur saman í kirkjunni okkar, uppi á sjúkrahúsi, Skógarbrekku og Hvammi og hvar sem okkur dettur í hug.
Orð Ásgeirs eiga ekki síður við í dag sem og ennfremur þessi orð hans frá því í fyrra, sem ég geri að lokaorðum mínum: “Staða kirkjunnar hefur vissulega breyst ef horft
er til hversu margir hafa gengið úr henni á undanförnum árum – en slíkt þarf ekki að veikja hana. Hennar styrkur liggur þrátt fyrir allt í trúnni – því hvað er
bjartsýnna en trú á Jesú Krist?”
Kærar þakkir fyrir samfylgdina á árinu og gleðilegt nýtt ár!
Sr. Sólveig Halla Kr.