Af kirkjustarfi síðustu vikur ársins

Deildu þessu:

Áður en aðventan gekk í garð lukum við fræðslukvöldunum okkar. Góð heimsókn frá Krabbameinsfélagi Akureyrar sem kynnti starfssemi sína og síðan ræddum við sorgina og jólin þegar sr. Hildur Eir kom í heimsókn.

Aðventutónleikar í upphafi aðventunnar og jólastund fjölskyldunnar voru ljúfar stundir og sömuleiðis tónleikar Kirkjukórsins. Fermingarbörn fengu heimsókn frá félögum úr Orðinu, sem afhentu fermingarbörnum Nýja testamentið, við þökkum kærlega fyrir þá góðu gjöf.

Á aðventu fer fram jólaúthlutun Velferðarsjóðs Þingeyinga. Margir styrktu sjóðinn sem stóð höllum fæti og er hann nú í góðum málum. Sjóvá á Húsavík stóð fyrir því að hægt var að kaupa Húsavíkurbréf að upphæð kr. 3000- og gefa til Velferðarsjóðs. Þar með fengu öll börn umsækjenda gjafabréf, þ.e. Húsavíkurbréf við jólaúthlutun. Kiwanismenn sáu um að gefa veglegan matarpakka og Haukamýri gaf fisk. Kærar þakkir færum við öllum aðilum.

Aðventustundir, á Hvammi, Skógarbrekku og hjá ýmsum félagasamtökum, þar sem presti er boðið að taka þátt og flytja nokkur orð, eru líka fastur liður á aðventu og ánægjulegar stundir.

Góð aðsókn var á aftansöng á Aðfangadag í Húsavíkurkirkju og einnig í jólahelgistundir á Skógarbrekku og Hvamm á jóladag. Húsavíkurprestur messaði, en félagar úr kirkjukór Húsavikur sungu jólasálmana undir stjórn Hólmfríðar Benediktsdóttur.

Við kveðjum árið með aftansöng á gamlársdag. Það er hefð að leikmaður úr söfnuðinum flytji hugleiðingu á þessum degi og ræðumaður í ár er Jóhannes Geir Einarsson.