Húsavíkurkirkja

 

Sigurður Pétur Björnsson

Minningar– og kveðjuræða

f. 1. nóvember 1917 – d. 13. nóvember 2007
jarðsunginn 24. nóvember

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Guð blessi þessa minningar og kveðjustund er við kveðjum Sigurð Pétur Björnsson eða Silla eins og hann ætíð var kallaður.

Þegar ég hugleiddi æviferil Silla þá kom í huga minn lítið vers úr Daviðs sálmum þar sem segir: “Ég treysti þér, Drottinn, ég segi: Í þinni hendi eru stundir mínar”.

Nú er sætið hans Silla autt í kirkjunni í vissum skilningi. Það kemur enginn í stað Silla því að hann var einstakt lífsmark frá Guði. Hann missti aldrei móðinn. Það er ekki hægt að segja að hann hafi aldrei talað illa um neinn. Hann var stundum geðstirður, jafnvel viðskotaillur. Ég segi þetta nú vegna þess að Silli sagði mér einu sinni glettinn að ég hefði geislabauga í kringum alla sem ég jarðsyngi.

Ég geri mér alveg grein fyrir því að þegar Silli fór fram úr rúminu þá gerði hann sér grein fyrir því að hann þurfti talsverða hjálp frá Guði. Ég hygg að svo sé um fleiri, jafnvel mig sem hér talar yfir moldum hans. Ég er þakklátur fyrir það að hafa kynnst Silla með kostum hans og göllum. Hann þáði lífið úr hendi Guðs og mátti nú hafa töluvert fyrir því að lifa til þess að byrja með. Sem barn lét hann sig dreyma um lífið þar sem hann lá í gifsi árum saman. Hann lét það síðar verða að veruleika. Hann tók áskoruninni sem lífið er og gerði lífið að skyldu sinni fullur ábyrgðarkenndar, ekki síst í garð þeirra sem lífið hafði leikið hart. Hann gætti lífsins sem sjáaldurs auga síns. Hann varðveitti auðlegðina sem lífið er. Hann gaf sig á vald kærleikanum sem lífið er. Hann sigraði sorgina sem lífið færði honum. Silli leitaðist við að vegsama Guð með sjón sem er næm á það sem gott er, með hreinum hugsunum og höndum sem eru fúsar að gjöra gott. Þannig vann hann kannski á köflum bug á eigin einmanakennd. Hann treysti Drottni, fól sig honum á vald að morgni sem að kveldi með bæn og beiðni ásamt þakkargjörð. Við þökkum Guði fyrir Silla sem leitaðist við að vera lífsmark frá honum.

Sigurður Pétur fæddist í Ási við Kópasker 1. nóvember 1917 og hann kvaddi þetta jarðneska líf á Sjúkrahúsi Húsavíkur 13. nóvember, sáttur við Guð og menn.

Foreldrar hans voru hjónin Sigríður Lovísa Sigurðardóttir húsfreyja og Björn Jósefsson héraðslæknir.

Sigurður Pétur var þriðji í röð níu alsystkina, í aldursröð: Björg Hólmfríður, Hólmfríður Björg, Sigurður Pétur, Jósef Jón, Sigríður Birna, María Eydís, Arnviður Ævarr, Einar Örn og Birna Sigríður.

Á lífi eru Arnviður Ævarr, Einar Örn og Hulda sem er hálfsystir systkinanna, samfeðra. Silli átti skjól hjá Arnviði bróður sínum og Þuríði konu hans árum saman sem hann var þakklátur fyrir. Bróðir Silla, Einar Örn og kona hans Laufey báðu fyrir innilega kveðju en þau sáu sér ekki fært að fylgja Silla til grafar vegna veikinda.

Fjölskyldan flutti til Húsavíkur þegar Silli var ársgamall en þá fékk Björn faðir hans veitingu fyrir Húsavíkurlæknishéraði eftir farsælan feril í Kópaskershéraði í fjögur ár. Læknisbústaðurinn var í fyrstu hús það á bakkanum sem síðar var lengi Hótel Húsavík. Síðar flutti fjölskyldan í læknisbústað að Garðarsbraut 17. Faðir Silla varð fljótt vinsæll læknir og tók þátt í ýmsum félagsmálum þorpsins. Móðir hans var mikilhæf kona. Hún aðstoðaði eiginmann sinn með því að svæfa sjúklingana ef þess þurfti með. Hún sá um sjúkraskýlið á neðri hæðinni í tíu ár en þar voru átta rúm. Það var eftir því tekið hversu vel hún hugsaði um sjúklinga á öllum aldri, ellihruma og deyjandi.

Silli bast móður sinni snemma sterkum böndum en hann átti við alvarleg veikindi að stríða sem barn og gekk því ekki í skóla fyrr en hann var orðinn 12 ára gamall. Hann greindist með berkla og varð að liggja rúmfastur í gifsumbúðum með hléum í nokkur ár. Þetta varð honum erfið lífsreynsla.

Silli fór margar ferðir suður til Reykjavík til þess að sækja sér lækninga ásamt móður sinni þar sem þau dvöldu mislangan tíma í einu. Í einni ferðinni hitti Silli Gest Pálsson leikara á Hverfisgötunni og spurði hann eins og barna er siður: “Hvað heitir þú?” Gestur var svarið. Silli hugsaði sig um og ítrekaði síðan spurningu sína og fékk sama svarið. Þá sagði Silli: “Ég meina hvað þú heitir, þegar þú ert heima hjá þér”.

Það var þetta létta lundarfar sem hjálpaði Silla að glíma við veikindi sín á uppvaxtarárunum ásamt nærgætni foreldra, systkina og vina í hans garð. Hann hafði ekki mikla fótaferð á þessum árum en hann mjakaði sér stundum þegar hann treysti sér til vestur yfir götuna til húsanna sem þá voru vöruhús, kolahús, salthús og fiskaðgerðarhús sem enn standa með breyttu notagildi.

Silli fór fyrst í barnaskóla, ólæs og óskrifandi og grátandi í fyrstu. Það var smíðað fyrir hann sérstakt borð því að hann var minni en aðrir og lágur í sæti. Við þetta borð sat hann sína barnaskólatíð. Snemma kom í ljós að reikningur lá vel fyrir honum. Að afloknum þremur vetrum í barnaskóla þá átti unglingaskólinn að taka við hjá Silla en hann náði ekki að klára hann vegna veikinda en eitt árið var hann svo veikur að talað var um í þorpinu að hætta við jólaskemmtunina sem Völsungur stóð þá fyrir.

Seiglan var mikil í Silla og hann fékk góða skoðun á fermingarári sínu þegar læknirinn á Kristneshæli sagði við hann að hann væri ekki svona sprækur nema fyrir það að lungun í honum væru hrein.

Hugur Silla stóð til skurðlækninga en hann hafði oft horft á föður sinn gera aðgerðir á fólki heima í læknishúsinu. Þetta þótti of langt nám fyrir Silla. Niðurstaðan varð sú að hann færi í Verslunarskólann í Reykjavík líkt og Björg systir hans hafði gert. Hún átti að undirbúa hann í bókfærslu og reikningi til að fara í 2 bekk af 4 sem þá voru.

Silli hóf þar nám árið 1938, 21 árs að aldri. Hann vantaði ekki eina klukkustund vegna veikinda öll árin. Silli talaði um það að skólastjórinn Vilhjálmur Þ. Gíslason hefði oft talað um kurteisisvenjur við nemendur sína. Hann talaði m.a. um það við þá að þeir mættu ekki ganga framhjá kvennaskólanum því að þá gætu þeir truflað kennslu í stofum sem snéru að götunni.

Tungumál lágu illa fyrir Silla en hann stóð sig vel í reikningi, bókfærslu, hagfræði og verslunarrétti. Hann mætti á fundi málfundafélagsins. Í fyrstu var hann mjög til baka því að hann fann fyrir sinni fötlun. Hann fann þó oft fyrir því að sig langaði að taka til máls og leiðrétta en hafði ekki kjark í sér til þess. Eftir að hafa hugsað málið þá var það á einum fundi að hann braut ísinn, mælskur mjög þó að hann sæi það ekki þá, og gleymdi því að hann væri ekki eins og flestir. Þetta átak varð til þess að hann fór almennt að taka þátt í umræðum og það endaði með því að hann varð aðalmálpípa síns bekks. Eitt sinn lenti hann í kappræðum við Samvinnuskólanemandann Helga Sæmundsson, síðar þjóðþekktan Íslending, um verslunarfrelsið. Allir bjuggust við að Silli myndi ráðast á Kaupfélagið sem hann gerði ekki heldur benti á að Þingeyingar vildu jafnræði í verslun og að skattar yrðu þeir sömu hjá báðum verslunum sem væri ekki, en hin verslunin var Guðjohnsen verslunin.

Það voru margir sem sóttust eftir starfskröftum Silla að afloknu fullnaðarprófi hans frá Verslunarskólanum vorið 1940. Þá kom honum til hugar að fara til Þýskalands og læra auglýsingateikningu og bókhald. En hann ákvað að fara heim til Húsavíkur ekki síst til þess að styðja föður sinn sem var meiri athafnamaður en fjármálamaður en hann stóð í ýmsum rekstri og sjúkrasamlagið var ekki til á þeim tíma. Eftir að það komst á legg breyttust fjármál föður hans til hins betra.

Sumarið 1940 sinnti Silli sínu fyrsta starfi á vegum Landssímans. Það var næturvakt og hlustun eftir hugsanlegum óvinaflugvélum. Í sambandi við þetta lærði Silli á afgreiðslu símaborðs og gegndi um tíma símstjórastarfi í forföllum.

Haustið 1940 réðist Silli til Júlíusar Havsteen og gegndi starfi sýslumanns í þrjá mánuði í leyfi hans. Þegar Júlíus kom úr leyfi sínu færði hann Silla ritsafn Davíðs Stefánssonar að gjöf í fimm bindum með svohljóðandi áritun: “Til míns kæra skrifara Sigurðar P. Björnssonar með þakklæti fyrir hans trúa starf, sérstaklega mánuðina mars – maí 1942”.

Silli var kosinn formaður íþróttafélagsins Völsungs árið sem hann kom heim að afloknu námi í Verslunarskólanum. Hann stofnaði dansklúbbinn Pipar og Salt með þeim fáu ungmennum sem í bænum voru að vetri til sem naut vinsælda um skeið.

Silli gerðist umboðsmaður Flugfélags Íslands h.f. þegar það hóf áætlunarflug til Húsavíkur 16. desember 1957. Hann gegndi því starfi í eitt ár.

Það var Silla að þakka að sundlaugin er þar sem hún er núna, næst íþróttavellinum en ekki á lóðinni að Laugarbrekku 24. Silli var formaður sundlaugarnefndar. Hann stóð fyrir ýmis konar fjársöfnun henni til handa. Hann efndi til krónuveltu, síldarballa og fékk sjálfboðaliða til að grafa grunninn. Hann fékk því framgengt að þróin yrði 16.67 metra löng. Heitt vatn fékkst með því að byggð var smá þró í fjörunni fyrir neðan bakkann.

Silli var fenginn til þess að taka að sér að gegna ráðsmennsku við Sjúkrahúsið árið 1943 en þá var halli á rekstrinum. Silli tók þá ákvörðun að láta hvern hrepp sem stóð að stofnuninni greiða til sjúkrahússins fjárhæð sem svaraði til verðs eins aðgöngumiða í bíó. Þannig tókst honum að rétta fjárhaginn furðu fljótt af.

Árið 1943 tók hann að sér að gegna starfi verðlagsstjóra í nokkur ár. Þetta var nokkuð tímafrekt starf því að hann fór oft um helgar til Kópaskers og Raufarhafnar í þessum erindagjörðum.

Silli var einn af stofnendum Rotary Klúbbs Húsavíkur árið 1944. Í 55 ár var hann með 100% mætingu sem er Íslandsmet.

Hann setti líka Íslandsmet hjá Morgunblaðinu þar sem hann starfaði sem fréttaritari í yfir 62 ár. Kaupendur að blaðinu voru aðeins tíu í fyrstu á Húsavík og bar Silli sjálfur út blaðið til þeirra. Silli sendi blaðinu einu sinni apríl gabb sem kom síðan í Öldinni okkar í fyrstu prentun sem frétt því að útgefendur létu gabba sig. 16. júní gerðu þjóðverjar árás á Súðina. Þegar Silli hugðist mynda um borð í skipinu mættu honum vopnaðir Bretar. En þegar hann sagði þeim að Morgunnblaðið hefði leyfi til myndatöku þá leyfðu þeir honum að mynda. Það voru einu myndirnar sem til eru af þessum atburði.

Hann bjó til nokkrar myndaseríur um Reykjahverfi, Laxárdal, Mývatni og Tjörnesi. Hann samdi texta við þessar myndir sem lesinn var inn á segulband sem hann spilaði um leið og hann sýndi hverja mynd. Hann bjó einnig til myndaseríu yfir kirkjur og presta í Þingeyjarprófastsdæmi ásamt texta sem fluttur var með hverri mynd. Filmurnar sem skipta þúsundum eru allar skráðar en sumar fékk hann ekki til baka eftir að hafa lánað þær. Ef einhverjir liggja óvart á þeim eru þeir beðnir að skila þeim til Safnahússins en eins og kunnugt er ánafnaði Silli Safnahúsinu á Húsavík eigur sínar á níræðisafmæli sínu 1. nóvember s.l. Silli teiknaði og skipulagði stofu Jóhanns Skaftasonar í Safnahúsinu og átti hugmynd að teikningu að Kapellunni í húsinu.

Hinn 13. apríl 1940 flutti afgreiðsla Sparisjóðs Húsavíkur í læknishúsið að Garðarsbraut 17 þar sem hann var þar til Landsbankinn yfirtók sparisjóðinn 1. janúar 1963 En áður hafði aðsetur sjóðsins verið til húsa þar sem formaður sjóðsins bjó á hverjum tíma. 1. nóvember 1941 tók Silli við starfi bókara hjá Sparisjóðnum. Silli gekk í það að fjölga stofnfjáreigendum og fjölgaði hluthöfum. Hann tók þá stefnu í útlánum að binda útlán aðeins við Þingeyjarsýslur því að hann vildi styðja við nýbyggingar. Höfðabrekkan á Húsavík er að mestu byggð upp með lánum Sparisjóðsins.

Þegar Landsbankinn tók yfir Sparisjóðinn fékk Silli að halda þessari húsnæðismálastefnu þó önnur útibú fengu það ekki. Margir héldu að það hefðu opnast breiðar dyr fyrir útlán og fólk fjölmennti og sótti meira í lán en áður en á því varð engin breyting. Fólki hitnaði í hamsi við þetta en Silla varð ekki hnikað nema fólk færði fullgild rök að honum fannst fyrir lánaumsóknum sínum. Ekki varð önnur breyting en sú að nú afgreiddi útibú Landsbankans á Húsavík afurðalán og erlendan gjaldeyri, eða alla þá þjónustu sem aðalbankinn í Reykjavík veitti. Veltan jókst mikið og viðskiptin urðu meiri og fjölbreyttari og viðskiptavinum, stórum sem smáum fjölgaði. Útibúið flutti í nýbyggt hús að Garðarsbraut 19, 12. apríl 1973 þar sem Silli bjó um sig á efri hæðinni en hafði þar jafnframt gestastofu.

Ég var einn af þeim sem auðnaðist að fá að gista þar fyrsta mánuðinn í embætti mínu sem prestur á Húsavík í nóvember mánuði árið 1986. Ég man hvað ég var forviða fyrsta kvöldið mitt hjá Silla þegar ég leit inn um glerið í ofninn í eldhúsinu en hann var fullur af skjölum. Ég kunni nú ekki við að líta inn í ísskápinn hans en langaði það í ljósi reynslu minnar af ofninum. Ég sá á gólfinu í sjónvarpsherberginu hjá honum gólfmottu sem hann hafði smyrnað en hún var alveg eins og ég átti hálfkláraða uppi í skáp. Ég lauk við mína eftir að ég kynntist Silla. Hann varð mér innblástur með svo ýmsum hætti.

Þegar hann hætti störfum flutti hann á æskuheimili sitt, fallegt og virðulegt sem hefur að geyma falleg og gömul húsgögn sem foreldrar hans áttu og afi og amma úr Skagafirði.

Ég hélt að Silli væri mikill bókaormur en hann gerði lítið úr því og sagði: “Ég keypti mikið af bókum þegar ég var ungur og ætlaði að lesa þær þegar ég yrði gamall en ég hefi ekki komist í það ennþá”.

Hann sat á kvöldin við útvarpið og sjónvarpið og saumaði út af miklu listfengi. Hann sagði mér að hann væri að sauma út fyrir konuna sína. Afköstin voru mikil. Hann saumaði út ógrynni af klukkustrengjum og diskamottum sem hann gaf venslafólki og vinum. M.a. allar 40 diskamotturnar í seríu frá Evu Rosendal. Hann var í sambandi við danskt handavinnufirma sem sendi honum útsaumsmyndir. Utan á pakkann frá þeim var ævinlega skrifað: “Frú Björnsson”. Það hefur væntanlega ekki hvarflað að neinum að einhver karl á Íslandi saumaði öll þessi ósköp.

Silli var hugulsamur maður. Hann saumaði fjóra fallega klukkustrengi og gaf fjórburum í Mosfellsbæ sem fæddust á afmælisdaginn hans. Á fermingardegi þeirra sendi hann þeim aftur klukkustrengi Í kjölfarið mynduðust dýrmæt tengsl sem Silli naut ekki síst góðs af.

Hann safnaði minningargreinum og setti í möppur og gaf aðstandendum. Yfirleitt var þetta bláókunnugt fólk sem Silli fann til með vegna sviplegra fráfalla og vildi gleðja. Hann fékk mikið þakklæti fyrir þetta vinarbragð.

Síðustu áratugina gaf Silli út annál fyrir jólin sem hann sendi í fyrstu vinum og ættingjum. Þetta spurðist út í saumaklúbbum fyrir sunnan og fyrr en varði póstsendi hann yfir 300 annála fyrir jólin. Rétt fyrir andlát sitt bað hann mig um lista yfir látna á árinu líkt og hann hafði gert árum saman. Nú hefur nafnið hans bæst á þennan lista. Hver mun nú taka við listanum?

Silli gat ekki hugsað sér að setjast í helgan stein þegar hann hætti störfum. Hann fór þá að safna upplýsingum um kirkjugarða og legstaðaskrár en hann komst að því að kynslóð sín hafði brugðist í þessum efnum. Það tók Silla þrjú ár að skrá kirkjugarðinn á Húsavík. Nú eru öll leiði þar skráð utan eitt en sú vinna reyndist bara byrjunin. Hann náði að skrá alla kirkjugarða í prófastsdæminu, teiknaði og samdi legstaðaskrár, en garðarnir eru alls 21. Þá gerði hann teikningar og skrár yfir heimagrafreiti í prófastsdæminu sem eru einnig 21. að tölu. Hann skráði kirkjugarðinn að Hofsstöðum í Skagafirði þar sem móðir hans fæddist og garðinn að Reynisstað þar sem frændfólk hans er grafið. Hann endurbætti legstaðaskrána af garðinum á Hólum í Hjaltadal. Hann skráði kirkjustaði, hálfkirkjur, bænhús og kuml sem hann hafði áhuga á að afla frekari upplýsinga um.

Árið 1957 hóf hann lestur fyrir sjúklinga á sjúkrahúsinu og síðar á dvalarheimilinu sem hann stundaði einu sinni í viku í 40 ár. Hann heimsótti einnig reglulega aldrað fólk á heimilum á Húsavík og í nágrenninu þar til það lést.

Alla þessa vinnu vann Silli á eigin kostnað ánægjunnar vegna. Það var áhuginn sem dreif hann áfram en hann var alltaf vinnuglaður.

Silli hlaut IR orðuna 1943. Hann hlaut fálkaorðuna sem hann meðtók fyrir störf sín utan bankastarfa. Þá hlaut hann ýmsar viðurkenningar frá Rotary International. Hann fékk gullmerki ÍSÍ og viðurkenningu hlaut hann frá Sundsambandi Íslands þó að hann hefði aldrei lært að synda. Hann var heiðursfélagi í Rotary klúbbi Húsavíkur og Sambandi íslenskra kirkjugarða.

Þegar hús voru skreytt fyrir jólin fann Silli fyrir því að ekkert var gert til að skreyta kirkjuna. Silli ákvað því fyrir jólin 1953 að kaupa og skreyta tvö ljósum prýdd jólatré við kórtröppurnar í kirkjunni og hélt uppteknum hætti eftir það. Hver ætlar að taka upp merki hans að þessu leyti? Sóknarbörn gera það í sameiningu en Silli var vakinn og sofinn í garð Húsavíkurkirkju í áratugi.

Silli gegndi starfi safnaðarfulltrúa Húsavíkursóknar og gjaldkera héraðssjóðs prófastsdæmisins í um 30 ár. Hann var skeleggur á sóknarnefndarfundum og árlegum héraðsfundum Þingeyjarprófastsdæmis. Hann tjáði skoðanir sínar umbúðalaust og vandaði um fyrir mönnum ef honum mislíkaði eitthvað. Undir niðri var hann hjartahlýr og tryggur vinur vina sinna sem voru fjölmargir. Hann fann til með þeim þjáðu og hrelldu og leitaðist við að líkna þeim og hugga líkt og móðir hans hafði gert sér og öðrum. Hann reyndist mér hollur ráðgjafi á fyrstu árum mínum í prestsskap. Fyrir það verð ég honum ævinlega þakklátur sem og allir þeir sem hann leitaðist við að hjálpa með einum eða öðrum hætti.

Silli var einstakur maður. Hann lagði sitt af mörkum til samfélagins á giftudrjúgri starfsævi þar sem hann naut blessunar Guðs í hverju því sem hann tók sér fyrir hendur til hinstu stundar. Vöggugjöf hans og veganesti var ríkulegt, ekki spillti hann því. Guði sé lof fyrir það.

Silli færði Húsavíkurkirkju margar góðar gjafir í gegnum tíðina, nú síðast andvirði altarisklæðis á aldarafmæli kirkjunnar í sumar. Sóknarbörn Húsavíkurkirkju minnast hans með virðingu og þökk fyrir fórnfúst starf og tryggð í þágu kirkjunnar fyrr og síðar.

Hann átti sitt sæti á þriðja bekk yst út við suðurgang. Hann var mjög kirkjurækinn maður, alveg til fyrirmyndar í þeim efnum. Kirkjuganga var honum sjálfsagður lífsmáti. Hann hafði vanist því að ganga til kirkju með foreldrum sínum og systkinum. Nú er allur bekkurinn auður því að kynslóðir fara og kynslóðir koma. Já, megi Guð gefa að kirkjuganga verði sérhverjum kristnum einstaklingi að lífsmáta. Þannig fyllast kirkjubekkirnir aftur og kirkjan ómar öll af lofgjörð til Drottins.

Eftirlifandi vandamenn og vinir minnast Sigurðar Péturs með sérstöku þakklæti fyrir það sem hann var þeim öllum.

Ættingjar Silla vilja færa Helgu Þuríði Árnadóttur alúðarþakkir fyrir hversu vel hún reyndist Silla en hún annaðist hann af mikilli kostgæfni síðustu misserin. Silli sagði við bróðurson sinn nokkrum dögum fyrir andlátið: “Ég finn hvað mig vantar mikið þegar hún Helga mín er ekki hérna”, en Helga var þá erlendis.

Lovísa Leifsdóttir og fjölskylda sem eru búsett í Svíþjóð báðu fyrir innilega kveðju.

Jónas Jónasson sem vegna lasleika getur ekki fylgt Silla til grafar bað mig að færa öllum sem þótti vænt um Silla dýpstu samúðarkveðjur.

Sr. Björn H. Jónsson bað mig að færa aðstandendum innilega samúðarkveðju. Hann minnist Silla með þakklæti fyrir margra ára ánægjulegt samstarf.

Að lokum flyt ég innilega kveðju frá sóknarbörnum í Hofsstaðasókn, Skagafirði sem minnast Silla með þakklæti fyrir hlýhug hans í garð kirkjunnar, ræktarsemi og höfðinglegar gjafir.

“Að leggjast til svefns að kvöldi er tjáning trausts. Við sleppum takinu og felum okkur og líf okkar nótt og dag hins óþekkta. En við treystum því að Guð vaki yfir okkur og verndi okkur, líka þá. Í fornri kristinni trúarhefð er það að sofna líka æfing í því að fela lífið í hendur Guðs og að deyja. Að sofna býr í haginn fyrir nýjan dag. Með því að deyja rísum við til nýs lífs, upprisunnar. Með því að sofna æfum við okkur í því að treysta Guði sem vakir yfir og mun vel fyrir sjá”. Við biðjum góðan Guð að sjá vel fyrir Silla í ríki upprisunnar og lífsins.

Silli hafði mælt svo fyrir um að ég myndi lesa að lokum kvöldbænirnar sem hann fór með á hverju kvöldi áður en hann gekk til náða.

Ég fel í forsjá þína
Guð faðir, sálu mína,
því nú er komin nótt
Um ljósið lát mig dreyma
og ljúfa engla geyma
öll börnin þín, svo blundi rótt.

Kristur minn ég kalla á þig,
komdu að rúmi mínu.
Gakktu hér inn og geymdu mig
Guð, í faðmi þínum.

Vertu nú yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
Sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.

Legg ég nú bæði líf og önd,
ljúfi Jesús, í þina hönd,
síðast þegar ég sofna fer
sitji Guðs englar yfir mér.

Nú legg ég augun aftur,
Ó, Guð þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil svo ég sofi rótt.

Amen.

     

    Við Garðarsbraut á Húsavík. Sími 464 2136 , fax 464 1317 · Kerfi RSS